Grindavík tók á móti Hamri í Dominosdeild kvenna í gærkvöldi. Stelpurnar voru eflaust staðráðnar í að rífa sig uppúr taphrinu í deildinni og nú var lag. Hamar var aðeins með einn sigur í deildinni fyrir gærkvöldið og síðast þegar liðin mættust kjöldrógu Grindavíkurkonur gestina, 102-48. Leikurinn í kvöld varð þó öllu jafnari en Grindavík vann að lokum nokkuð þægilegan sigur, 79-62.
Karfan.is fjallaði um leikinn:
„Grindavíkurstúlkur sem fengu magalendingu í síðustu umferð á móti Val eftir glæsilegan sigur á móti Haukum í bikarnum fyrir rúmri viku, fengu Hamarsstúlkur úr Hveragerði í heimsókn í Dominosdeildinni í kvöld. Eins og í leiknum á móti Val vantaði nokkra leikmenn í lið heimasætanna en Sigrún Sjöfn og Lilja komu til baka en Helga fór í staðinn í borgaralegu klæðin. Áfram vantaði Írisi og Jeanne. Hamasstúlkur voru fullmannaðar.
Heimastúlkur byrjuðu mun betur og spiluðu hörku vörn til að byrja með og voru Hamrarnir í hinum mestu vandræðum með að skora og voru á 3 stigum þar til skammt lifði 1. leikhluta en þær spýttu aðeins í lófana í lokin og enduðu með 12 stig á móti 18 stigum heimakvenna sem áttu auðveldara með að koma tuðrunni í gegnum hringinn. Whitney dró skorunarvagninn fyrir heimastúlkur, var með 9 stig og fyrirliðinn Petrúnella með 6 stig. Hjá gestunum voru Salbjörg og nýlegur Kani, Alexandra Ford báðar með 4 stig að loknum 1. fjórðungi.
2. leikhluti var jafnari til að byrja með og eftir rúmar 6 mínútur var u.þ.b sami munur og eftir 1. leikhlutann. Á þessum tíma hvíldi Whitney talsvert sem skýrir þetta jafnræði jafnvel að einhverjum hluta til – eða jafnvel öllum…. Eftir lékhlé tóku heimastúlkur mikla rispu með Sigrúnu Sjöfn fremsta í flokki með 2 þristum og áður en varði var munurinn kominn upp í 16 stig en Hamarsstúlkur náðu aðeins að laga stöðuna fyrir hálfleiks-te-ið og staðan í hálfleik 42-29. Whitney áfram stigahæst heimasætanna með 14 stig en eftir rispuna sína hjó Sigrún Sjöfn ansi nærri henni með 13 stig. Petrúnella auk þess kominn í hinn vinsæla 2-stafa flokk með 10 stig. Hjá Hamri var Ford kominn í 13 en engin önnur nálægt 2-stafa tölunni.
Gestirnir komu mun ákveðnari til leiks í seinni hálfleik og ljóst að ræða Odds þjálfara Hamars bar meiri árangur en ræða kollega hans á Grindavíkurbekknum. Eftir tæpar 5 mínútur var munurinn kominn í 7 stig og heimastúlkur bara búnar að skora 2 stig á þeim kafla. Hrund setti síðan flottan þrist og kveikti þar með svo um munaði í liðsfélögum sínum og áður en varði var munurinn kominn upp í 16 stig, 57-41 og gestir tóku tíma. Hrund var þarna búin að setja 3 af 3 þristum ofan í og var bullsjóðandi heit! 16 stiga munurinn hélst út fjórðunginn og ljóst að gestirnir þyrftu að girða sig í brók ef sigur átti að nást. Whitney var áfram stigahæst þó nokkuð hafi hægst á henni síðan úr fyrri hálfleik en hún var komin með 16 stig og 8 fráköst og Sigrún Sjöfn áfram með sín 13 stig en auk þess 9 fráköst og 5 stoðsendingar. Það var hin unga Hrund sem dró skorunarvagninn í 3. leikhlutanum með 11 stig. Eldri systir hennar með stigi meira að loknum 3 leikhlutum. Alexandra Ford áfram allt í öllu hjá gestunum með 19 stig. Salbjörg með 8 og Nína Jenný með 7 stig.
Jafnræði var með liðunum í byrjun lokahlutans og ljóst að Hamar var ekkert að fara gera tilkall til „W” í þessum leik. En um miðbikið settu heimastúlkur í fluggírinn og skoruðu hverja körfuna á fætur annarri og munurinn allt í einu kominn í 24 stig, 74-50 og það þrátt fyrir að lykilleikmenn færu að týnast út af, væntanlega til að hvíla beinin fyrir undanúrslitin í bikarnum. M.a. steig nýr leikmaður, Sigrún Elfa Ágústsdóttir sem er úr Þorlákshöfn, sín fyrstu grindvísku spor og eins komu Elsa Katrín Eiríksdóttir, Viktoría Líf Steinþórsdóttir og Halla Emilía Garðarsdóttir við sögu. Minni spámenn gestanna fengu líka lokamínúturnar og var gaman að sjá framtíðina glíma í lokin. Öruggur sigur heimastúlkna staðreynd, 79-62.
Bestu leikmenn Grindavíkur að mati undirritaðs voru títtnefndar Whiteny Michelle og Sigrún Sjöfn en Hrund Skúladóttir kom líka mjög sterk upp í seinni hálfleiknum. Alexandra Ford var yfirburðarkona hjá Hamri og skoraði 24 stig. Salbjörg daðraði við tvennuna með 9 stig og 9 fráköst.“
Oddur Benediktsson, þjálfari Hamars: „Já, þetta var full erfitt í kvöld en við náðum þessu þó nokkrum sinnum niður fyrir 10 stigin en þá komu Sigrún, Hrund og Kaninn sem voru allar frábærar og ýttu muninum aftur upp í 15-20 stig og því var þetta alltaf erfitt fyrir okkur en heilt yfir var ég ánægður með mínar stelpur” Aðspurður um nýja bandaríska leikmanninn: „Ég er mjög ánæður með þessi skipti. Hún er mjög dugleg á æfingum og gerir alla í kringum sig betri. Hún var mikið að skjóta en hefði kannski mátt gefa boltann aðeins meira en yfir höfuð er ég mjög ánægður með hana” Varðandi stöðuna í deildinni og framhaldið: „Mér líst ágætlega á framhaldið, það er bara næsti leikur, Valur eftir viku og ef við byggjum á þessu og fjölgum góðu köflunum þá erum við í góðum málum”
Pétur Guðmundsson, aðstoðarþjálfari Grindavíkur: „Já, þetta var nokkurn veginn eins og við lögðum þetta upp. Við vorum með leikinn í okkar höndum eiginlega allan tímann, þær náðu stundum að narta aðeins í okkur en þetta var nokkurn veginn eins og við áttum von á” Enn og aftur vantaði nokkrar í liðið, fáið þið einhvern tíma að njóta þeirra forréttinda að vera með fullmannaða hersveit? „Eigum við ekki að segja að þegar það skiptir máli þá verðum við með fullmannað lið og getum þá virkilega sýnt hvað í okkur býr” Hvenær hefst undirbúningur fyrir undanúrslitin í bikaranum? „Hann er byrjaður, hófst strax eftir að þessum leik lauk. Varðandi framhaldið í deildinni þá er bara að tryggja okkur inn í úrslitakeppnina, það er í okkar höndum og við sjáum bara til eftir nokkra leiki hvort við þurfum eitthvað að endurstilla markmiðin en þetta er allt í okkar höndum”