Óli Stefán tekur við KA

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Óli Stefán Flóventsson hefur tekið við þjálfun KA á Akureyri. Óli hefur undanfarin þrjú ár verið aðalþjálfari Grindavíkur en hann sagði starfi sínu lausu núna í lok sumars. Grindvíkingar eru því þjálfaralausir í bili en samkvæmt fréttum Fótbolta.net er Srdjan Tufegdzic, fyrrum þjálfari KA, í viðræðum við nokkur lið, þar á meðal Grindavík.

Fótbolti.net greindi frá vistarskiptum Óla Stefáns:

Óli Stefán nýr þjálfari KA (Staðfest)

Óli Stefán Flóventsson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við KA. 

Hann kemur til félagsins eftir að hafa stýrt Grindavík undanfarin þrjú ár sem aðalþjálfari þar sem hann kom liðinu meðal annars upp í efstu deild og hefur tryggt Grindavík í sessi sem stöðugt úrvalsdeildarfélag. 

Óli Stefán lék á sínum tíma 212 leiki í efstu deild fyrir Grindavík og Fjölni og skoraði í þeim 32 mörk. 

„Tilfinningin að koma norður er mjög góð. Ég þekki KA af góðu einu og veit að hér hefur verið unnið frábært starf síðustu ár. Ég veit líka að ég tek við góðu búi af frábærum þjálfara þannig að það að taka við KA er mikil áskorun fyrir mig,“ segir Óli Stefán við heimasíðu KA. 

„Nú þarf ég fyrst og fremst að setja mig inn í starfið og kynna mér alla möguleika í kringum þetta félag. Ég kem inn í félag sem hefur skýra framtíðarsýn og sterk gildi sem mér líkar. Mín vinna miðast alltaf við að taka skref áfram og þannig verður það líka hér. KA hefur fest sig í sessi á síðustu tveimur árum sem gott Pepsídeildarlið. Nú þarf ég að taka utan um það og reyna að móta lið sem getur tekið næstu skref í því ferli sem félagið hefur lagt grunn að.” 

„Við erum afskaplega ánægð með það að hafa náð saman með Óla Stefáni,” segir Hjörvar Maronsson formaður knattspyrnudeildar KA. „Það er ljóst að hugmyndir okkar um að uppbygging liðsins til lengri tíma byggi á öflugum kjarna uppalinna leikmanna, fara saman. Óli hefur sýnt það að hann er óhræddur við að setja ábyrgð á unga leikmenn og flétta þá þannig ínní sterka liðsheild sem vinnur vel saman.” 

„Við KA menn sjáum marga öfluga unga leikmenn bíða eftir að þroskast og taka þátt í verkefnum meistaraflokks á komandi árum. Við teljum Óla vera þann mann sem hentar best til þess að hrinda þessum áætlunum okkar í framkvæmd.” 

Óli tekur við af Srdjan Tufegdzic, eða Tufa eins og hann er kallaður. KA endaði í sjöunda sæti Pepsi-deildarinnar í sumar.