Ólafur Örn Bjarnason fyrirliði Grindvíkinga verður í banni næsta mánudag þegar þeir sækja Keflvíkinga heim. En nýr leikmaður spilar með Grindavík í þeim leik, Skotinn Ian Williamson, en gengið var frá samningi við hann í dag.
Ólafur fékk gula spjaldið eftir að leik Grindavíkur og FH lauk á Grindavíkurvelli í gærkvöld, eftir orðaskipti við Magnús Þórisson dómara.
Skoski knattspyrnumaðurinn Ian Williamson skrifaði í hádeginu undir samning við Grindavík og spilar með liðinu út sumarið.
Ný leikmaðurinn, Ian Williamson, er 24 ára gamall miðjumaður og hefur leikið undanfarin þrjú ár með Raith Rovers en spilaði áður með Dunfermline í þrjú ár. Hann á að baki 96 leiki í tveimur efstu deildunum og hefur skorað í þeim 10 mörk.
„Við höfum verið að athuga með fleiri möguleika en það er því miður ekkert fleira uppi á borðinu hjá okkur eins og er. Við erum í miklum vandræðum með framherjana okkar því Tomi Ameobi og Pape Faye eru báðir meiddir og óvíst hvenær þeir geta spilað, auk þess sem Jósef Kristinn Jósefsson leikur væntanlega ekkert meira með okkur í ár,” sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindvíkinga við mbl.is.
Þess má geta að það var fyrrum lærisveinn Guðjóns hjá enska liðinu Barnsley, Craig Ireland, sem kom Grindvíkingum í samband við Williamson en Ireland er nú þjálfari hjá Raith Rovers.Guðjón: Strunsaði ekki í burtu
Strunsaði ekki í burtu
Guðjón Þórðarson, þjálfari Grindvíkinga, segir að það sé af og frá að hann hafi ekki viljað tala við fjölmiðla eftir ósigurinn gegn FH í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í gærkvöld.
Í Morgunblaðinu var m.a. sagt að Guðjón hafi strunsað framhjá blaðamönnum án þess að gefa færi á sér í viðtal.
„Það er ekki rétt að ég hafi strunsað í burtu eftir leikinn. Ég gekk framhjá fjölmiðlamönnum eftir leikinn en þeir voru þá allir uppteknir með menn í viðtölum. Ég fór inn í “gula húsið” og náði mér í kaffi, kom síðan til baka en þá var staðan óbreytt. Ég beið í smástund en fór síðan út,” sagði Guðjón við mbl.is.
„Það var vissulega þungt í mér eftir ósigurinn og ég var ekkert að hanga eftir því að menn kæmu til að tala við mig. En ég er ekki í neinum slag við fjölmiðla og er tilbúinn til að tala við þá eftir sem áður,” sagði Guðjón Þórðarson.