Öflugur framherji á leið til Grindavíkur

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Enski sóknarmaðurinn Tomi Ameobi mun að öllum líkindum semja við Grindvíkinga um að leika með þeim í úrvalsdeildinni í knattspyrnu í sumar, en umboðsmaður hans sagði á Twitter í gærkvöld að væntanlega yrði gengið frá því í dag.

Ameobi lék með BÍ/Bolungarvík í 1. deildinni síðasta sumar, undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar, núverandi þjálfara Grindvíkinga. Hann var markahæsti leikmaður liðsins og sá fjórði markahæsti í deildinni með 11 mörk í 22 leikjum. Ameobi er 23 ára gamall og hefur leikið með Scunthorpe, Doncaster, Grimsby og Mansfield í neðri deildunum í Englandi og með utandeildaliðunum Forest Green Rovers og Whitley Bay.

Ameobi er bróðir Shola og Sammy, leikmanna úrvalsdeildarliðsins Newcastle. Hann er fæddur í Newcastle og lék með unglingaliði félagsins til 17 ára aldurs og var síðan í röðum Leeds í tvö ár en fékk ekki tækifæri með aðalliðinu þar.