Grindavík skellti Stjörnunni örugglega 87-67 í úrvalsdeild karla í körfubolta í Röstinni. Earnest Lewis Clinch Jr. eða Fjarkinn eins og sumir kalla hann, nýjasti bandaríski leikmaður Grindavíkur og sá fjórði röðinni á þessari leiktíð, lofar góðu en hann skoraði 17 stig og sýndi flott tilþrif.
Grindavík hafði talsverða yfirburði allan tímann og sigurinn aldrei í hættu. Staðan í hálfleik var 45-37 Grindavík í vil og liðið náði mest 24 stiga forystu. Ómar Örn Sævarsson stal senunni hjá Grindavík en hann spilaði mjög vel og skoraði 17 stig og hirti 8 fráköst.
Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 17/5 stoðsendingar, Ómar Örn Sævarsson 17/8 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 14, Jón Axel Guðmundsson 12, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 8/8 fráköst, Þorleifur Ólafsson 7, Ólafur Ólafsson 6/9 fráköst, Jens Valgeir Óskarsson 3, Daníel Guðni Guðmundsson 3.
„Ég myndi segja að strákarnir hafi gert þetta nokkuð þægilegt fyrir okkur í kvöld”, sagði Sverrir Þór Sverrisson við Vísi þegar hann var spurður hvort að sigurinn á Stjörnunni hafi verið þægilegur.
„Við vorum að spila góða vörn og sýna góða baráttu og var þetta fínn liðssigur hjá okkur.”
Sverrir náði að nýta allt liðið sitt í kvöld og var hann ánægður með að geta hvílt menn þótt það væru átta dagar í næsta leik. „Á meðan þeir sem komu inn voru að leggja sig fram og standa sig þá var hægt að spila á mörgum mönnum. Þetta var mjög gott hjá okkur hérna í kvöld.”
Um Stjörnuna sagði Sverrir, „Þegar við komumst í góða forystu í seinni hálfleik fannst mér þeir detta heldur fljótt niður og það var eins og þeir hefðu enga trú á þessu. Það kom mér aðeins á óvart því ég hélt að þeir myndu djöflast alveg fram á seinustu mínútu. Stjarnan er það gott lið en við kláruðum verkefnið með stæl og það er mjög gott.”