Jimmy Mayasi, 25 ára framherji frá Danmörku, er þessa dagana á reynslu með knattspyrnuliði Grindavíkur. Mayasi, sem á ættir að rekja til Kongó, var síðast á mála hjá Tarxien Rainbows á Möltu þar sem hann skoraði fjögur mörk í sextán leikjum. Áður var Mayasi á mála hjá Skive og AC Horsens í danska boltanum.
Töluverð meiðsli eru í herbúðum Grindvíkinga. Tomi Ameobi reyndi að æfa með liðinu í vikunni en þurfti að hætta vegna verkja. Mikil óvissa ríkir hvort hann spili frekar með liðinu á tímabilinu.
Luic Ondo, sem var ekki í leikmannahópi Grindvíkinga í 1-0 tapinu gegn FH, hefur hins vegar æft og verður líklega í hópnum gegn Keflavík á mánudag. Pape Mamadou Faye á enn í töluverðum vandræðum vegna meiðsla á mjöðm.
Iain Williamson, skoski leikmaðurinn sem gekk til liðs við Grindavík á lánssamningi fyrr í vikunni, hefur vakið lukku heimamanna. Hann þykir góður sendingamaður og ætti að styrkja botnliðið í baráttunni sem framundan er, að því er segir á Vísi.is