Nú hefst alvaran

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Nú hefst alvaran þegar Stjarnan kemur í heimsókn í kvöld. Ég á von á svakalegri rimmu enda Stjarnan með svaka trukka innanborðs og má búast við að hnefarnir og olnbogar tali. Þetta verður örugglega mögnuð skemmtun fyrir áhorfendur,” segir Jón Gauti Dagbjartsson stjórnarmaður í körfuknattleiksdeild UMFG um rimmu Grindavíkur og Stjörnunnar í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Mikið hefur gengið á eftir að Stjarnan sló út Keflavík í 8 liða úrslitunum og í dag sendi Stjarnan frá sér yfirlýsingu.

„Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar harmar það atvik sem átti sér stað í oddaleik Stjörnunnar og Keflavíkur, milli Fannars Helgasonar, leikmanns Stjörnunnar og Vals Valsonar leikmanns Keflavíkur. Atvikið átti sér stað þegar leikmennirnir börðust um boltann og var óviljaverk af hálfu leikmanns Stjörnunnar. Hins vegar lítur deildin þetta mál alvarlegum augum þar sem slík atvik geta haft alvarlegar afleiðingar.
Tekið hefur verið á málinu innan Stjörnunnar, og hafa forráðamenn deildarinnar og þjálfarar átt samtal við leikmanninn og undirstrikað alvarleika málsins. Niðurstaðan er sú að Fannar mun tímabundið ekki bera fyrirliðabandið fyrir hönd Stjörnunnar. Það er von Kkd Stjörnunnar að þar með sé þessu máli lokið.”

Allir leikmenn Grindavíkur eru heilir og klárir í slaginn í kvöld. Heyrst hefur að stuðningsmenn Stjörnunnar muni fjölmenna suður með sjó og gera sitt til þess að troðfylla Röstina.

Karfan.is rifjaði upp leiki liðanna í vetur:
Leikur 1 – 12. janúar 2012
Stjarnan 67-75 Grindavík
Watson gerði 19 stig í þessum leik fyrir Grindavík og Pettinella var þá ekki kominn við sögu. Jovan var meiddur í liði Stjörnunnar en Lindmets kominn í búning, Justin var stigahæstur Garðbæinga með 15 stig í þessum leik.

Leikur 2 – 22. mars 2012
Grindavík 89-80 Stjarnan
Allir klárir í bátana, Pettinella í búning sem og Jovan. Watson aftur stigahæstur hjá Grindavík og nú með 24 stig en hjá Stjörnunni var Renato Lindmets með 24.

Stjarnan hefur því enn ekki unnið leik gegn Grindavík þetta tímabilið en liðin mættust í 8-liða úrslitum á síðustu leiktíð þar sem Stjarnan sendi gula í sumarfrí og spilaði svo til úrslita gegn KR.

Ef við skoðum tölur liðanna þá sjáum við að Grindvíkingar eru að skora 89,7 stig að meðaltali í leik í 24 leikjum á Íslandsmótinu en fá á sig 78,5 stig að meðaltali í leik. Að sama skapi eru Stjörnumenn að gera 87,8 stig að meðaltali í leik og fá á sig 82,7 stig í 25 mótsleikjum.