Níu stiga tap gegn Val

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík tapaði fyrir Val í Dominos deild kvenna í körfubolta 73-64. Grindavík lék án Pálínu Gunnlaugsdóttur sem er meidd.  Leikurinn var jafn og spennandi en ótrúleg hitni Vals um miðbik fjórða leikhluta skildi á milli þegar yfir lauk. Grindavík var einu stigi yfir í hálfleik 34-33. 

Jafnt var á öllum tölum en Grindavík náði þó mest sex stiga forystu í öðrum leikhluta 30-24. Það forskot dugði þó ekki lengi því Valur minnkaði muninn í eitt stig fyrir hálfleik 34-33.

Grindavík náði frumkvæðinu í þriðja leikhluta og náði mest sjö stiga forystu 53-46 en Valur náði að jafna leikinn fyrir fjórða leikhluta með sjö síðustu stigum þriðja leikhluta. Frábær vörn liðsins auk þess sem Þórunn Bjarnadóttir var sjóðandi heit fyrir utan þriggja stiga línuna skilaði því að Valur jafnaði og allt var í járnum fyrir síðasta fjórðunginn.

Valur hóf fjórða leikhluta af krafti og komst fimm stigum yfir 58-53 en þá hafði liðið skorað 12 stig í röð. Valur náði ellefu stiga forskoti þegar rúmar tvær mínútur voru eftir 71-60 þegar Unnur Lára Ásgeirsdóttir hitti úr tveimur þriggja stiga skotum í röð og Hallveig Jónsdóttir einu til viðbótar og reyndist það of stór biti fyrir lið Grindavíkur sem saknaði Pálínu Gunnlaugsdóttur sem er meidd.

Valur-Grindavík 73-64 (16-13, 17-21, 20-19, 20-11)

Grindavík: Lauren Oosdyke 20/10 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 19, Jeanne Lois Figeroa Sicat 9, Helga Rut Hallgrímsdóttir 8/12 fráköst, María Ben Erlingsdóttir 7/9 fráköst/6 stoðsendingar, Marín Rós Karlsdóttir 1/5 fráköst, Katrín Ösp Eyberg 0, Julia Lane Figueroa Sicat 0, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 0/4 fráköst, Hrund Skuladóttir 0, Alda Kristinsdóttir 0.

Jón Halldór: Stoltur af liðinu

„Þær eru ótrúlega duglegar og þjöppuðu sér heldur betur saman. Það er fullt af flottum stelpum í liðinu og þær börðumst allan leikinn. Það vantaði herslumuninn upp á að klára þetta,” sagði Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Grindavíkur við Vísi í leikslok.

„Þær settu einhverja fjóra þrista í fjórða leikhluta sem voru mjög stórir fyrir þær. Fram að því voru þær ekki búnar að hitta neitt fyrir utan Þórunni. Á dauða mínum átti ég von en ekki þessu. Hún var frábær í dag og það er mjög gaman að sjá eldri leikmenn koma til baka. Hún hefur átt í vandræðum en er greinilega komin í gírinn aftur.

„Okkur vantaði smávegis í sókninni. Ef við hefðum skorað eina stóra körfu þegar þær voru komnar fjórum stigum yfir eða sett niður þrist þá veit ég ekki hvernig þetta hefði farið, það vantaði smá í restina.

„Ég er ótrúlega stoltur af þessum stelpum og ef þær halda svona áfram þá kvíði ég ekki framhaldinu,” sagði Jón Halldór sem saknaði síns besta leikmanns í kvöld.

„Pálína bíður eftir að komast til læknis sem verður á miðvikudaginn. Við vitum ekkert með þessi meiðsli. Eins og staðan er núna er hún meidd og verður ekki með enn um sinn. Við sjáum bara hvað setur og ef við náum að halda áfram að vinna eins og við gerum þá verður Pálína bara viðbót við liðið þegar hún kemur til baka.

„Við erum að berjast við að komast í úrslitakeppnina en það má ekki gleyma því að Grindavík var í 2. deild fyrir 2 árum og rétt bjargaði sér frá falli í fyrra. Við erum í fjórða sæti eins og staðan er núna og árangurinn er ekki slæmur en auðvitað viljum við alltaf meira,” sagði Jón Halldór.

Staðan:
1. Keflavík 11 9 2 850:795 18
2. Snæfell 11 9 2 871:724 18
3. Haukar 11 7 4 873:802 14
4. Grindavík 11 5 6 782:828 10
5. Valur 11 5 6 803:812 10
6. Hamar 11 4 7 777:820 8
7. KR 11 3 8 753:803 6
8. Njarðvík 11 2 9 754:879 4