Nánast úrslitaleikur fyrir okkur

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

,,Stigin skipta gríðarlegu máli núna og leikurinn í kvöld er leikur sem við verðum að vinna. Þetta er nánast úrslitaleikur fyrir okkur,” sagði Óskar Pétursson markvörður Grindvíkinga við Fótbolta.net í dag en liðið mætir Selfyssingum í Pepsi-deildinni í kvöld.

Þessi lið eru í fallsæti í Pepsi-deildinni fyrir leikinn í kvöld en þau gerðu 3-3 jafntefli fyrr í sumar. ,,Í fyrri leiknum byrjuðum við ekki nógu vel en náðum að koma til baka og jafna 3-3 eftir að hafa lent 3-1 undir. Við ætlum að byrja leikinn í dag eins og við enduðum fyrri leikinn.”

Pape Mamadou Faye, Marko Valdimar Stefánsson og Alexander Magnússon verða allir fjarri góðu gamni í kvöld en þeir taka út leikbann.

,,Þeirra verður sárt saknað en við erum furðuheilir þessa dagana. Við eigum menn til að koma í staðinn og það þýðir ekkert að pæla í hverjir verða með og hverjir ekki enda er það ekki það sem skiptir máli. Við verðum 11 sem byrja og gætum mögulega átt 2-3 á bekknum til að koma inn á.”

Grindvíkingar hafa lent í miklum meiðslum í sumar en meiðslalistinn hefur þó sjaldan verið styttri í sumar en nákvæmlega núna.

,,Það var æfing um daginn þar sem mættu 18 eða 19 leikmenn sem tóku þátt og við vorum eiginlega í sjokki og vissum ekki hvað við áttum að gera. Þetta sumar er búið að vera ótrúlegt hvað varðar meiðsli og skakkaföll. Við höfum verið fámennir en við höfum verið duglegir að fá 2. flokks strákana með okkur á æfingar,” sagði Óskar að lokum.