Nágrannaslagur af bestu gerð

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Fyrsti heimaleikur sumarsins í úrvalsdeild karla er í kvöld og hann er ekki af verri endanum, nágrannaslagur Grindavíkur og Keflavíkur. Bæði lið gerðu jafntefli í fyrstu umferðinni en síðan þá bætast þrír leikmenn í leikmannahóp Grindavíkur, þeir Alexander Magnússon og Magnús Björgvinsson sem voru meiddir og svo Englendingurinn Jordan Edridge sem hefur fengið leikheimild.

Edridge hefur verið við æfingar hjá liðinu í þrjár vikur en forráðamenn Grindavíkur vildu gefa sér góðan tíma til skoða leikmanninn áður en samið var við hann.

Edridge, sem er 21 árs gamall, er uppalinn hjá Chesterfield og lék með liðinu í ensku D-deildinni en hefur spilað með utandeildarliðinu New Mills í vetur.

Vonandi verður góð aðsókn á leikinn í kvöld en metaðsókn var á 1. umferð Pepsideildar karla. Þegar liðin mættust á Grindavíkurvelli í fyrra mættu 987 áhorfendur en árið 2010 mættu hvorki fleiri né færri en 1568.

Mynd: Grindavík fagnaði sigri á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í lokaumferðinni í fyrra og hélt þar með sæti sínu í deildinni.