Milan Stefán heldur með Íslandi

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

„Auðvitað fer ég á völlinn, ég ætla að halda með Íslandi,” segir Milan Stefán Jankovic, þjálfari knattspyrnuliðs Grindavíkur, sem er virkilega ánægður með mótherja íslenska landsliðsins í undankeppni HM.

Milan sem er fæddur í Sagreb í Króatíu hefur verið búsettur á Íslandi síðustu 22 árin. Hann er staddur í Króatíu í fríi og segir alla þar vera að tala um íslenska landsliðið.

„Fjölmiðlar eru undirlagðir af umræðu um leikinn, útvarp, sjónvarp, allt. Króatar vita ekki að Ísland er með góða leikmenn og gott lið. Hér halda menn að leikurinn sé þegar unninn. Það væri því virkilega gaman ef við næðum að vinna Króatíu,” segir Milan.

Milan segir vin sinn, sem er formaður króatíska knattspyrnusambandsins hafa verið í útvarpsviðtali í dag þar sem hann sagði niðurstöðu útdráttarins vera draumi líkasta.

„Hann sagði að hann hafi alltaf vonast eftir að fá Íslendinga sem mótherja,” segir Milan sem kemur til landsins í tæka tíð fyrir leikinn þann 15. nóvember.

Milan segir fjölda Íslendinga af króatísku bergi brotinn vera í kringum 50 manns. Hann segir að líklegast vilji allir komast á leikinn gegn Króatíu.

Vísir.is