Mikilvægur sigur Grindavíkurstúlkna

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Síðasta fimmtudag léku Grindavíkurstelpurnar við Stjörnuna í B-deild kvenna (1. deild). Þetta var sannkallaður toppslagur því bæði lið voru jöfn að stigum á toppi deildarinnar fyrir leikinn. Þegar liðin mættust í bikarnum á dögunum hafði Stjarnan betur.

 

Stelpurnar okkar byrjuðu vel og sýndu strax að þær ætluðu að selja sig dýrt í þessum leik. Mikil barátta og leikgleði einkenndi leik okkar stelpna og staðan eftir fyrsta leikhluta var 7-19. Varnarleikurinn var afar góður og í kjölfarið fylgdu auðveldar körfur. Staðan í hálfleik var 20-32, Grindavík í vil.

Seinni hálfleikur var ekki eins góður og sá fyrri. En þrátt fyrir erfiðleika í sókninni var það vörnin og baráttan sem að skilaði sigrinum í hús. Stelpurnar hleyptu Stjörnustúlkum aldrei nálægt og lönduðu öruggum 12 stiga sigri í hús 49-61.

Þetta þýðir að stelpurnar sitja einar á toppi 1. deildar, hafa unnið 8 leiki og tapað aðeins 1.

Berglind Anna Magnúsdóttir átti afbragðs leik. Hún setti niður 12 stig og leiddi liðið bæði í vörn og sókn. Jeanne átti einnig góðan dag og stjórnaði leik liðsins með miklum sóma. Yrsa var einnig öflug, þá sérstaklega í vörninni. Gaman var að sjá að Sandra Ýr, sem nýlega hefur tekið fram skóna, komst hún afar vel frá leiknum. Annars var þetta sigur liðsheildarinnar og virkilega gaman að fylgjast með stelpunum.

Stigaskor: Berglind Anna 12, Jeanne 11, Sandra Ýr 9, Yrsa 8, Mary 7 og aðrar minna.

Hér má sjá skemmtilegar myndir sem Kristinn Benediktsson tók í leiknum og sendi heimasíðunni til birtingar.