Mikilvægur leikur á Grindavíkurvelli í kvöld – Haukar koma í heimsókn

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Í kvöld fer fram afar mikilvægur leikur á Grindavíkurvelli þar sem Grindavík mun taka á móti Haukum í 1. deild karla í knattspyrnu. Mikill stígandi hefur verið í leik Grindavíkurliðsins í undanförnum leikjum og stigin safnast hratt í sarpinn. Má segja að í kvöld sé komið að ögurstundu þar sem skorið verður úr um hvort að liðið muni blanda sér í toppbaráttuna fyrir lokasprettinn eða sitja eftir um miðju deild.

Grindvíkingar hafa harma að hefna gegn Haukum en fyrri leikur liðanna á þessu tímabili í Hafnarfirði tapaðist 1-0 þar sem Óli Baldur brenndi af víti og fékk í kjölfarið að líta rauða spjaldið fyrir afar litlar sakir að mörgum fannst.

Grindvíkingar eru hvattir til að fjölmenna á völlinn í kvöld og hvetja strákana okkar áfram. Leikurinn hefst kl. 19:15 en stuðningsmenn ætla að hittast í Gula húsinu klukkutíma fyrir leik og taka létt spjall og hita upp.

Óli Stefán, annar af þjálfurum liðsins, birti í dag fróðlegan pistil á Facebook síðu knattspyrnudeildarinnar, þar sem hann fer yfir sumarið hingað til. Við birtum hér niðurlag hans en hvetjum áhugasama til að lesa hann í heild sinni á síðu deildarinnar:

„Þegar við spiluðum við Hauka í fyrri umferð töpuðum við 1-0 í leik hinna glötuðu tækifæra. Við klikkuðum á bestu færunum, m.a víti og misstum Óla Baldur af velli með rautt spjald. Nú er tíminn til að svara fyrir sig því ég gleymi aldrei þeirri ógeðslegu tilfinningu sem fór um okkur eftir þann leik.

Ég vil biðla til ykkur ágæta stuðningsfólk að koma með okkur í það sem við erum að reyna að gera. Mætingin hefur verið ágæt í síðustu leikjum en hún getur alveg verið mun betri. Stuðningurinn hefur verið ágætur í síðustu leikjum en hann getur verið svo miklu betri.

Strákunum finnst ekkert skemmtilegra en að gleðja ykkur, fagna með ykkur í stúkunni eftir leiki og eru til í að leggja helvíti mikið á sig til þess að gera það. Ég segi oft við strákana í upphitun fyrir leiki “farið alla leið með stemmninguna og það er allt í lagi að ýkja hana jafnvel” Því segi ég það sama við ykkur stuðningsmenn góðir “Farið alla leið með stemmninguna og ýkið hana jafnvel !! “

3. flokkur karla ætlar að klæða sig upp og búa til smá stemningu í stúkunni. Þeir ætla að mæta klukkutíma fyrr í gula og gíra sig upp. Ert þú ekki til í að mæta í gulu með stjörnum framtíðarinnar sem ætla að hjálpa til í stúkunni??

Sjáumst hress, gul og glöð, í ýktri stemningu á Grindavíkurvelli kl 19.15 í kvöld.“