Grindavík mætir Stjörnunni öðru sinni í undanúrslitum úrvalsdeildar karla í körfubolta í Ásgarði í Garðabæ í kvöld kl. 19:15. Grindavík leiðir einvígið 1-0 en þrjá sigurleiki þarf til þess að komast í úrslitaleikina. Sigurbjörn Dagbjartsson stjórnarmaður í körfuknattleiksdeildinni, skrifar pistil um leikinn á heimasíðu UMFG og segir m.a.
„Enn og aftur snýst þetta um hvernig við Grindvíkingar mætum til leiks. Með höfuðið rétt skrúfað á eru okkur allir vegir færir en á góðum degi erum við virkilega skeinuhættir! Mögnuð breidd og góðir leikmenn í öllum stöðum. En andlausir erum við jafn lélegir! En það er úrslitakeppni og þá er bannað að koma andlausir til leiks og á ég því von á mínum mönnum grimmum til leiks og kæmi mér hreinlega ekki á óvart ef við vinnum eftir jafnan leik!
Gaman frá því að segja að Körfuknattleiksdeild Grindavíkur hefur sett upp facebook síðu og hvet ég alla til að senda vinabeiðni – ef þeir eru ekki nú þegar orðnir vinir kkd.umfg en núna eru 354 vinir komnir og við byrjuðum í gær…… Stefnum á að setja vinahópinn í 1000+ áður en leik lýkur á þessu tímabili svo vonandi höfum við tæpan mánuð til stefnu….. :),” segir Sigurbjörn.
Þriðji leikur liðanna verður svo í Röstinni nk. mánudagskvöld.