Laufléttur kanalaus sigur í bikarnum – Þorsteinn Finnbogason með stórleik

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Tvö grindvísk lið léku í 32-liða úrslitum bikarkeppninnar um helgina. ÍG menn tóku á móti Tindastóli hér í Röstinni en 2. deildarlið ÍG átti sennilega aldrei möguleika gegn úrvalsdeildarliði Stólanna og enduðu leikar 72-99, gestunum í vil.

Úrvalsdeildarlið Grindavíkur heimsótti lið KV í kennaraháskólann, en KV leikur með ÍG í 2. deild. Það var svipað uppá teningnum, KV sáu aldrei til sólar og okkar menn rúlluðu yfir þá, 43-99. Stigahæstur Grindvíkinga var sóknarmaskínan Þorsteinn Finnabogason sem lét körfunum rigna í öllum regnbogans litum og setti 31 stig áður en yfir lauk.

Má segja að þetta hafi verið áreynslulítill sigur fyrir Grindvíkinga sem léku án erlends leikmanns en leikstjórnandinn Joel Haywood hefur verið sendur heim. Samkvæmt heimildum síðunnar er verið að leita að há- og þrekvöxnum miðherja í hans stað og hafa einhverjar þreyfingar á leikmannamarkaðnum þegar átt sér stað.