Eftir fimm tapleiki í röð hjá Grindvíkingum í Dominosdeild karla kom loks sigur í hús á föstudaginn. Þá mættu okkar menn í heimsókn í Grafarvoginn til Fjölnismanna. Báðum liðunum hafði ekki gengið sérlega vel í deildinni og aðeins uppskorið tvo sigra í níu leikjum. Sigur í þessum leik var því ekki síst mikilvægur til þess að slíta liðið frá botnbaráttunni og þokast nær sæti í úrslitakeppninni.
Enn hefur kvarnast úr leikmannahópi Grindvíkinga en leikstjórnandinn ungi, Oddur Rúnar Kristjánsson er meiddur og lék ekki með í þessum leik og missir væntanlega af næstu leikjum einnig.
Leikurinn var jafn og spennandi framan af og skiptust liðið á að hafa forystu en í byrjun seinni hálfleiks tóku okkar menn forystuna og létu hana ekki aftur af hendi. Lokatölur urðu 90-97 Grindvíkingum í vil. Stigahæstur Grindvíkinga var Magnús Þór Gunnarson 23/6 stoðsendingar, næstur kom Rodney Alexander 21/5 fráköst, og Ólafur Ólafsson 18/6 fráköst. Þá skoraði Hilmir Kristjánsson 12, Ómar Örn Sævarsson 11/9 fráköst og Hinrik Guðbjartsson 10.
Næsti leikur Grindvíkinga og sá síðasti fyrir jól er heimaleikur gegn Snæfelli fimmtudaginn 18. desember og vonandi förum við með sigur inn í jólafríið.