Kvennalið UMFG komið með Kana fyrir veturinn

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari meistaraflokks kvenna hjá UMFG, ætlar greinilega ekki að sitja með hendur í skauti í sumar heldur er hann strax byrjaður að styrkja liðið fyrir átök vetrarins. Gengið hefur verið frá samningum við erlendan leikmann, en sú heitir Rachel Tecca, er 185 cm hár framherji sem lék með Akron skólanum síðasta tímabil við góðan orðstír.

Það er ljóst að þarna er á ferðinni mjög öflugur leikmaður sem mun án vafa hjálpa liðinu í teignum. Á sínu síðasta tímabilinu með Akon skoraði hún að meðaltali 22,1 stig í leik og var með 9,3 fráköst. Á vordögum fór hún í trial fyrir WNBA deildina en sem betur fer fyrir Grindavík var hún ekki svo heppin að komast í gegnum þann niðurskurð.

Þá hafa Grindvíkingar einnig samið við tvo unga og efnilega Njarðvíkinga, þær Guðlaugu Björt Júlíusdóttur og Ásdísi Völu Freysdóttur, en þær eru fæddar 1996 og 1994.

Grindavíkurliðið mætir klárlega sterkt til leiks í haust á pappírunum og stefnan hlýtur að vera bæta upp fyrir vonbrigði síðasta tímabils, sem litaðist mjög af meiðslum lykilmanna.