Króatar fengu aðstoð frá Grindavík

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Niko Kovac, landsliðsþjálfari Króata í knattspyrnu, hefur meðal annars leitað ráða hjá leikmanni fyrstudeildarliðs Grindvíkinga í undirbúningi sínum fyrir leikina gegn Íslendingum í umspilinu fyrir HM, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag. Króatínn Juraj Grizelj lék með Grindvíkingum í sumar og var einn af bestu leikmönnum deildarinnar en hann skoraði tíu mörk fyrir Suðurnesjaliðið og lagði mörg upp.

Í Morgunblaðinu segir:

,,Kovac skýrði frá því á fréttamannafundi í gær að Grizelj hefði hjálpað sér mikið og gefið sér gagnlegar upplýsingar um íslenskan fótbolta, aðstæður og leikmenn.

Veðrið á Íslandi skiptir engu máli

Landsliðsþjálfarinn sagði á fundinum að hann væri búinn að lesa íslenska liðið eins og opna bók og endurtók þar það sem hann hafði áður sagt að leikaðferð Íslands væri ákaflega einföld og auðlesin.

Hann var spurður um veðrið á Íslandi og gaf lítið út á það. Sagði að veðrið skipti engu máli fyrir leikinn og það kæmi jafnt niður á leikmönnum beggja liða.

Fram kom í gær að vinstri bakvörðurinn Ivan Strinic, sem leikur með Dnipro í Úkraínu, væri meiddur og afar ólíklegt væri að hann myndi spila á Íslandi. Strinic glímir við tognun í kviðvöðva. Kovac kallaði í gær Danijel Pranjic, 31 árs gamlan bakvörð frá Panathinaikos í Grikklandi, inní hópinn í hans stað.

Sennilegt þykir þó að Dejan Lovren frá Southampton verði færður í stöðu vinstri bakvarðar í staðinn fyrir Strinic og þeir Vedran Corluka og hinn reyndi Josip Simunic verði miðverðir.

Króatískir fjölmiðlar eru í vafa um Simunic, sem leikur með Dinamo Zagreb, og telja hæpið að hann sé í nægilega góðu formi til að eiga við hinn hættulega framherja Íslands Kolbein Sigþórsson.

Þá meiddist Ivica Olic, framherji Wolfsburg, í leik liðsins gegn Dortmund í Þýskalandi, eftir að hafa skorað fyrir sitt lið í góðum sigri. Kovac sagði þó allar líkur á að hann yrði leikfær á föstudaginn. Spili hann ekki á Laugardalsvellinum er talið líklegast að Eduardo, fyrrverandi leikmaður Arsenal sem nú spilar með Shakhtar Donetsk, komi inn í byrjunarliðið.”

Mynd: Króatínn Juraj Grizelj sem lék með Grindvíkingum í sumar