Kristijan Jajalo og William Daniels áfram með Grindavík

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Grindvíkingar eru þegar farnir að huga að leikmannamálum fyrir Pepsi-deildina á næsta ári. Tveir erlendir leikmenn hafa framlengt samninga sína við liðið, en það eru Kristijan Jajalo markvörður og sóknarmaðurinn William Daniels. Báðir skrifuðu þeir undir tveggja ára samninga við liðið.

Kristijan Jajalo er 23 ára markvörður frá Bosnínu-Hersegóvínu. Hann kom til liðsins í lok júlí þegar leikmannamarkaðurinn opnaði á ný en Grindavík hafði átt í miklum markvarðavandræðum framan af sumri. Maciej Majewski sem hafði verið aðalmarkvörður liðsins, sleit hásin fyrir tímabilið og þá var Anton Ari Einarsson fenginn að láni frá Valsmönnum til að leysa hann af. Anton var hins vegar kallaður til baka eftir aðeins 1 leik og því var Hlynur Örn Hlöðversson fenginn að láni frá Blikum en hann náði ekki að festa sig í sessi sem markvörður liðsins.

Kristijan var því hálfgerð himnasending fyrir liðið og átti margar glæsilegar markvörslur í þeim 12 leikjum sem hann lék í sumar. Heyrðist oft talað um það í stúkunni að þarna væri kominn markvörður sem væri vel brúkanlegur í Pepsi-deildinni og eru eflaust margir stuðningsmenn sem fagna þessum fréttum.

Þá hefur Bandaríkjamaðurinn William Daniels einnig framlengt sinn samning en hann skoraði 6 mörk í 17 leikjum í sumar.

Fótbolti.net greindi einnig frá því að Rodrigo Gomes Mateo verði áfram hjá liðinu en hann á tvö ár eftir af sínum samningi. Ekki er ljóst hvort að Spánverjarnir Juan Ortiz Jimenez og Fransisco Eduardo Cruz verði áfram hjá liðinu en hinn brasilíski Josiel Alves De Oliveira mun vera á förum frá liðinu.

Frétt fótbolta.net um Kristijan Jajalo

Frétt fótbolta.net um William Daniels

Mynd: Fótbolti.net – samsetning: Grindavik.is