Eftir að hafa byrjað tímabilið á fljúgandi siglingu þá brotlentu Grindvíkingar harkalega í DHL-höllinni í gær. Íslandsmeistarar KR völtuðu hreinlega yfir okkar menn sem sáu aldrei til sólar en lokatölur urðu 87-62.
Karfan.is gerði leiknum rækilega skil í máli og myndum:
KR sigraði Grindavík fyrr í kvöld á heimavelli sínum í DHL Hllinni með 87 stigum gegn 62. Fyrir leikinn voru bæði liðin taplaus í vetur, KR því enn efst liða í deildinni á meðan að Grindavík er nú í 4.-5. sæti ásamt Keflavík, Tindastól og Stjörnunni.
Þáttaskil
Þó að fyrir leikinn hafi kannski verið hægt að telja sjálfum sér trú um það að lið Grindavíkur ætti einhverja möguleika gegn ríkjandi meisturum síðastliðinna þriggja ára, var KR ekki lengi að fæla fólk frá slíkum pælingum. Frá lokum fyrsta leikhluta og vel inn í annan (9 mínútur) hélt vörn KR svo vel að Grindavík náði ekki að skora körfu af vellinum (skoruðu úr 1 víti á tímabilinu) Á meðan náðu þeir að byggja upp fínt forskot. Voru 27 stigum yfir þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Vankaðir
Það var eins og liðsmenn Grindavíkur væru hálf vankaðir í dag. Líklegast sá eini sem að spilaði samkvæmt getu í dag var erlendur leikmaður þeirra, Earnest Lewis Clinch Jr, en hann skoraði 23 stig, tók 8 fráköst og gaf 6 stoðsendingar í leiknum. Aðrir leikmenn sem að voru að skila af sér fínum frammistöðum fyrir liðið í fyrstu tveimur umferðunum voru heillum horfnir. Þá kannski sérstaklega máttarstólpar liðsins, þeir bræður Ólafur og Þorleifur Ólafssynir, en samanlagt skoruðu þeir aðeins 8 stig í dag.
Tölfræðin lýgur ekki
Þó nokkur munur var á skotnýtingu liðanna í kvöld. KR tók 65 skot í leiknum og hitti úr 30 þeirra (46%) á meðan að Grindavík tók 76 skot og hitti úr 24 þeirra (32%)
Yngri leikmenn
KR fær í kvöld, líkt og í fyrstu tveimur leikjum mótsins, flott framlag frá yngri leikmönnum sínum. Má þar helsta nefna Þórir Guðmund Þorbjarnarson, sem að er að spila 26 mínútur að meðaltali og Arnór Hermannsson, sem er að spila 24 mínútur að meðaltali í byrjun móts.
Hetjur
Bestu leikmenn, í annars góðu liði, KR í kvöld voru erlendur leikmaður þeirra Cedric Bowen og Brynjar Þór Björnsson. Vegna þess hversu fljótt þessi leikur var búinn fengu þeir þó að hvíla sig vel í seinni hálfleiknum. Cedric skilaði 18 stigum, 7 fráköstum og 4 vörðum skotum á aðeins 16 mínútum í leiknum. Brynjar Þór skoraði jafn mikið og allt Grindarvíkurliðið í fyrri hálfleiknum (20 stig) Í heildina skoraði hann 22 stig, tók 4 fráköst og gaf 5 stoðsendingar á 27 mínútum spiluðum.
Viðtal við Ólaf Ólafsson eftir leik: