Annað árið í röð luku Grindvíkingar keppni snemma í Dominosdeild karla og líkt og í fyrra voru það KR-ingar sem sendu okkar menn í sumarfrí. Grindvíkingar hafa oft átt betri leiki en í þessari viðureign við KR sem sópuðu Grindvíkingum úr keppninni, rétt eins og í fyrra, 3-0. Eftir tap hér í Grindavík var ljóst að það yrði á brattan að sækja en KR-ingar slökktu allar vonir Grindvíkinga um áframhaldandi þátttöku í úrslitakeppninni með öruggum sigri í Vesturbænum miðvikudaginn fyrir páska, 83-62.
Karfan.is fjallaði um leikinn:
KR lokaði sinni seríu gegn Grindavík í kvöld með 83-63 sigri í DHL-höllinni. Heimamenn fengu flott framlag frá mörgum en mest fór fyrir Michael Craion sem var með 21 stig, 7 fráköst, 4 stolna bolta & 2 varin skot. Pavel Ermolinski var flottur og henti í þrennu með 10 stig, 12 fráköst og 11 stoðsendingar. Grindvíkingar voru leiddir nær eingöngu af Ómari Erni Sævarssyni en hann var með 17 stig, 13 fráköst, 4 stoðsendingar og 28 af 60 framlagsstigum liðsins.
KR er fyrsta og eina liðið til að senda mótherja sína í fyrstu umferð úrslitakeppninnar beint í sumarfrí með því að taka seríuna gegn Grindavík 3-0. Það var ljóst strax frá byrjun hvert leikurinn stefndi en KR-ingar voru fljótir að setja tóninn. Gestirnir frá Grindavík mættu varla til leik fyrstu mínúturnar og því að elta frá upphafi. Heimamenn spiluðu sinn leik vel og þá er erfitt að eiga við meistarana á heimavelli.
Það var áberandi framlagsleysi í sóknarleik Grindvíkinga hjá lykilleikmönnum sem liðið treystir á að skili stórum tölum. Það kom lítið sem ekkert framlag frá Charles Garcia sem var einfaldlega lélegur í kvöld. Jón Axel Guðmundsson átti einnig erfitt með að komast á blað en hann meiddist svo á höfði í seinni hálfleik en sneri þó aftur á völlinn en þá vel skreyttur sárabindum.
Hjá KR voru menn vel stemmdir og hittu vel og leikgleðin virtist bara lifa hjá öðru liðinu í kvöld. Það voru 1. og 3. leikhlutarnir sem kláruðu leikinn, 2. leikhluti spilaðist nokkuð jafnt sem og loka leikhlutinn en þá voru óreyndari leikmenn komnir inn hjá báðum liðum. Jóhann Þór Ólafsson gaf þó nokkrum yngri leikmönnum séns í kvöld sem svöruðu kallinu og skiluðu flottum tölum gegn reynslunni úr Vesturbænum.
Tímabilið er þó ekki búið hjá Grindavík því að stelpurnar hefja leik í úrslitakeppninni gegn Haukum annað kvöld. Gauti Dagbjartsson, framkvæmdastjóri körfuknattleiksdeildarinnar, gerði tímabilið upp á Facebook-síðu deildarinnar og hvetjum við ykkur til að lesa þann pistil og styðja svo vel við bakið á stelpunum okkar þegar Haukar koma í heimsókn.