Eftir að Grindavíkurkonur tóku sig til og völtuðu yfir Stjörnuna á sunnudaginn áttu Grindvíkingar möguleika á því að eiga fulltrúa í báðum bikarúrslitaleikjunum þetta árið. En til að komast þangað þurftu strákarnir að ryðja stórri hindrun úr vegi, KR. Framan af leik leit raunar út fyrir að það myndi hafast en eins og Þorleifur Ólafsson benti á í viðtali eftir leik er ekki nóg að spila vel í 30 mínútur, þá sérstaklega gegn liði eins og KR.
Eftir jafnan leik fyrstu þrjá leikhlutana var eins og okkar menn yrðu bensínlausir á miðri leið og KR skoruðu 14 stig í röð án þess að heimamenn næðu að svara. Lokatölur urðu svo 70-81.
Fréttaritari síðunnar átti því miður ekki heimangengt í gær en vinir okkar hjá karfan.is gerðu leiknum vandlega skil, bæði í máli og myndum:
KR kláraði dæmið í 4.leikhluta og er á leið í Höllina
Í kvöld áttust við lið Grindavíkur og KR í Mustad höllinni í Grindavík. Þessi lið á mjög ólíkum stað í deildinni. KR að berjast um toppsætið á meðan Grindvíkingar hafa átt erfitt uppdráttar í vetur og eru í baráttu um tryggja sér sæti í úrslitakeppninni. En í kvöld var allt önnur keppni, leikur í undanúrslitum Powerade bikarkeppninnar og skipti því staða liðanna í deildinni ekki einu einasta máli þegar sæti í úrslitaleik í Höllinni er innan seilingar.
Grindavík lagði lið Skallagríms að velli í 8-liða úrsitum á meðan KR unnu Njarðvík. Kvennalið Grindavíkur tryggði sér farseðilinn í úrslitin kvöldið áður og því gátu karlarnir gefið íbúum Grindavíkur flottan bikarúrslitadag þann 13. febrúar næstkomandi.
1 leikhluti einkenndist af miklum hraða til að byrja með þar sem liðin skiptust á að skora en reyndar sá Ægir Þór Steinarsson um að skora fyrir gestina í KR en hann setti 8 fyrstu stig liðsins. Grindvíkingar spiluðu glimrandi vörn i byrjun og var nýji erlendi leikmaður þeirra Charles Wayne að halda Michael Craion vel niðri. Charles Wayne henti svo í tvær myndarlegar troðslur á hinum enda vallarins þegar Grindvíkingar náðu örlitlu forskoti. Sóknir KR voru ekki að ganga sem skyldi á þessum tímapunkti og voru skot þeirra ekki að rata rétta leið. Undir lok leikhlutans fengu Grindvíkingar síðustu sóknina sem endaði með töluverðu klafsi undir körfunni þar sem Jón Axel náði á endanum boltanum og kom honum ofaní þegar innan við sekúnda var eftir af leiktímanum. Lokatölur leikhlutans voru 19-12.
2 leikhluti fór rólega af stað en KR fór að setja niður sín skot og saxa niður það forskot sem Grindavík hafði byggt upp í fyrsta leikhluta. Helgi Már var drjúgur í liði KR og setti hann 4 stig með stuttu millibili og þá setti Ægir sína þriðju 3.stiga körfu af sama staðnum og kom KR yfir í leiknum 19-20. Liðin skiptust á að skora og voru Grinvíkingar að hirða sóknarfráköst og fá 2-3 sjénsa í hverri sókn sem var að fara vel í taugarnar á þjálfurum KR-inga. Jafnt var á öllum tölum og endaði leikhlutinn 36-38 KR í vil. Dagskipun KR-inga var greinilega að keyra upp hraðann í leiknum en Grindvíkingar voru yfir í frákastabaráttunni eins og áður segir og voru að fá 2-3 sénsa í hverri sókn.
Atkvæðamestir hjá liðunum í hálfleik, voru hjá Grindavík: Wayne með 10 stig/ 6 fráköst, Jón Axel með 8 stig / 5 fráköst og Þorleifur með 8 stig. Hjá KR: Ægir Þór með 15 stig Darri með 10 stig/3 fráköst, Craion með bara 4 stig en 8 fráköst.
3. leikhluti var alveg eins liðin skiptust á að skora. Jón Axel fór mikinn fyrstu mínúturnar fyrir heimamenn en hann setti 7 fyrstu stigin í leikhlutanum fyrir sína menn. Bæði lið voru að spila fína vörn en hraðinn í leiknum var ekki sá sami og í byrjun leiks. Jón Axel átti til að mynda flott blokk á Craion eftir að KR-ingar stálu boltanum og keyrðu í hraða sókn. KR-ingar skoruðu svo 5 síðustu stigin í leikhlutanum og setti Björn Kristjánsson svakalega 3.stiga flautukörfu lengst utan af velli og kom KR í 51-53.
4. leikhluti byrjaði svo hræðilega fyrir Grindvíkinga sem var algjörlega fyrirmunað að skora en KR-ingar settu 9 fyrstu stig leikhlutans og komust 51-65 þegar Craion gerði vel og kláraði undir körfunni ásamt því að fá vítaskot sem hann setti niður. Á þessum tímapunkti gekk allt upp hjá gestunum í KR, bæði í vörn og sókn og áttu þeir til að mynda ævintýralega körfu þegar Björn K henti boltanum frá miðjulínu undir pressu beint í hendurnar á Brynjari sem þurti lítið að gera en að leggja boltan ofaní. Á meðan var ekkert að ganga upp hjá heimamönnum og virtist sem allur vindur færi úr þeim. Þorleifur setti fyrstu stig Grindavíkur þegar 3 mínútur voru búnar af leikhlutanum. Eftirleikurinn var auðveldur fyrir gestina í KR þar sem heimamenn náðu aldrei taktinum eftir þetta 14-0 run hjá KR frá lokum 3. leikhluta og í byrjun 4. leikhluta. Jón Axel virtist vera sá eini með lífsmarki hjá Grindvíkingum og var hann allt í öllu sóknarlega. Svo fór að KR renndi leiknum í hlað með því að klára hann 70-81 en restin af leiknum fór meira og minna fram á vítalínunni. Heimamenn spiluðu vel í 30 mín en það dugar skammt á móti liði eins og KR. KR því á leiðinni í bikarúrslit en þá þyrstir eflaust í að hirða dolluna eftir að hafa tapað fyrir Stjörnunni í úrslitum í fyrra.
Atkvæðamsetir hjá heimamönnum voru Jón Axel 25 stig/ 12 fráköst /4 stoðsendingar, Þorleifur 17 stig/ 5 fráköst, Charles Wayne 13 stig/ 11 fráköst en hann sást lítið í seinustu tvo leikhlutana og Jóhann Árni með 11 stig/ 8 fráköst.
Hjá KR var Ægir Þór með 20 stig/ 8 fráköst, Michael Craion 18 stig/ 11 fráköst, Darri Hilmars 12 stig/ 5 fráköst og Brynjar Þór 10 stig.
Viðtal við Lalla í leikslok: