Körfuboltavertíðin af stað – Nágrannaslagur í 1. umferð

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Úrvalsdeild karla í körfubolta, Iceland Express deildin í körfubolta, hefst í dag þegar Grindavík tekur á móti grönnum sínum í Keflavík. Í árlegri spá þjálfara og leikmanna fyrir veturinn var Grindavík spáð 2. sæti í deildinni og í Morgunblaðinu í dag er liðinu spáð því þriðja. Stefnan hjá Grindavík er hins vegar klárlega sett á 1. sætið.

 

Nýr bandarískur leikmaður liðsins J’Nathan Bullock er ekki kominn til landsins og verður því ekki með í fyrsta leik.

Á Sport.is er Grindavík spáð 3. sæti og þar segir:
Gulir hafa ekki þótt nægilega sterkir miðað við ,,pappíra” á undirbúningstímabilinu en Grindvíkingar hafa verið án leikstjórnanda. Þeir sömdu þó við Giordan Watson sem vakti athygli með Njarðvíkingum undir lok síðasta tímabils. Sumarið færði gulum Jóhann Árna Ólafsson og Sigurð Gunnar Þorsteinsson en fyrir í Grindavík má finna sleggjurnar Ólaf Ólafsson, Þorleif Ólafsson, Ómar Sævarsson og Pál Axel Vilbergsson sem reyndar hefur ekkert verið með á undirbúningstímabilinu. Hér fer þó sterkur hópur sem vafalítið verður í toppbaráttunni í vetur undir stjórn Helga Jónasar Guðfinnssonar.

Keflavík er af flestum spekingum spáð 5.-7. sæti í deildinni. Um liðið segir Sport.is:
Blóðtaka Keflavíkur í sumar var ansi svæsin, Gunnar Einarsson er hættur, Sigurður Gunnar Þorsteinsson fór í Grindavík, Hörður Axel Vilhjálmsson fór í atvinnumennsku og Jón N. Hafsteinsson hefur lítið sést í Toyota-höllinni á undirbúningstímabilinu. Hvað verður með Jón skal ósagt látið en Keflvíkingar eru með mikið breytt lið. Sumarið færði þeim Val Orra Valsson frá FSu og Arnar Freyr Jónsson er kominn heim og að stíga upp úr meiðslum en skellti samt 28 stigum yfir Stjörnuna í Reykjanesmótinu á dögunum. Keflvíkingar eru nokkuð spurningamerki þetta tímabilið en Jarryd Cole mun ógna í teignum og Magnús Þór Gunnarsson fyrir utan svo það er allt opið hjá liðinu sem hefur verið afksrifað oftar en skuldir auðmanna. Þessar afskriftir á Keflavíkurliðinu hafa oftar en ekki verið vatn á millu liðsmanna félagsins og hafa þeir tætt í sig allnokkrar spár.