Körfuboltaparið Jóhann Árni Ólafsson og Petrúnella Skúladóttir voru kjörin íþróttamaður og íþróttakona Grindavíkur 2013 við hátíðlega athöfn í Hópsskóla á gamlársdag. Jóhann Árni var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Grindavíkur á síðasta keppnistímabili og Petrúnella einnig í lykilhlutverki í kvennaliði félagsins.
Allar deildir UMFG og Golfklúbbur Grindavíkur tilnefndu íþróttamenn og íþróttakonur ársins úr sínum röðum. Valnefndin samanstendur af stjórn UMFG og frístunda- og menningarnefnd. Jóhann Árni og Petrúnella fengu bæði yfirburða kosningu. Þau eru körfuboltapar, eiga saman eitt barn og annað er á leiðinni og því hefur Petrúnella ekki leikið með kvennaliðinu nú í lok ársins.
Það var Marta Sigurðardóttir bæjarfulltrúi sem afhendi Jóhanni Árna og Petrúnellu viðurkenningar sínar.
Jóhann Árni fékk fullt hús stiga eða 100. Hann var lykilmaður í liði Grindvíkinga þegar liðið varð deildarmeistari og svo Íslandsmeistari annað árið í röð nú síðastliðið vor. Var kosinn besti leikmaður liðsins og valinn í úrvalslið Domino´s deildarinnar. Einnig er hann í landsliði Íslands og spilaði 5 leiki með því á þessu ári. Hann er í dag yfirþjálfari unglingaflokka deildarinnar ásamt því að þjálfa. Jóhann er mikill félagsmaður og algjör topp fyrirmynd fyrir alla sem horfa á körfubolta.
Petrúnella fékk 97 stig af 100 mögulegum. Petrúnella var í byrjunarliði A-landsliðs Íslands sem endaði í 2. sæti á Smáþjóðaleikunum í Lúxemborg í sumar þar sem liðið tapaði naumlega úrslitaleiknum, í þeim leik var Petrúnella kosin besti maður liðsins af þjálfaranum. Petrúnella á marga leiki að baki fyrir yngri landslið Íslands; U-16 og U-18. Petrúnella er flott íþróttakona sem gefst aldrei upp er mikill liðsmaður og góð fyrirmynd.
Eftirtaldir voru tilnefndir í kjörinu:
F.v. Jósef, Jóhann Árni, Jóhann, Eggert Daði, Sigurður Gunnar, Davið Arthur og Björn Lúkas.
Íþróttamaður Grindvíkur:
Björn Lúkas Haraldsson – Tilnefndur af júdódeild og taekwondódeild UMFG
Davíð Arthur Friðriksson – Tilnefndur af Golfklúbbi Grindavíkur
Eggert Daði Pálsson – Tilnefndur af ÍG
Jóhann Árni Ólafsson – Tilnefndur af körfuknattleiksdeild UMFG
Jóhann Helgason – Tilnefndur af knattspyrnudeild UMFG
Jósef Kristinn Jósefsson – Tilnefndur af knattspyrnudeild UMFG
Sigurður Gunnar Þorsteinsson – Tilnefndur af körfuknattleiksdeild UMFG
Frá vinstri: Anna Þórunn, Ylfa Rán, Petrúnella, Margrét, Helga Rut og Gerða Kristín.
Íþróttakona Grindavíkur:
Anna Þórunn Guðmundsdóttir – Tilnefnd af knattspyrnudeild UMFG
Gerða Kristín Hammer – Tilnefnd af Golfklúbbi Grindavíkur
Helga Rut Hallgrímsdóttir – Tilnefnd af körfuknattleiksdeild UMFG
Margrét Albertsdóttir – Tilnefnd af knattspyrnudeild UMFG
Petrúnella Skúladóttir – Tilnefnd af körfuknattleiksdeild UMFG
Ylfa Rán Erlendsdóttir – Tilnefnd af taekwondódeild UMFG
Frá vinstri: Þorsteinn Gunnarsson sviðsstjóri frístunda- og menningarsviðs, Helena Bjarndís Bjarnadóttir formaður frístunda- og menningarnefndar, Petrúnella Skúladóttir íþróttakona ársins, Jóhann Árni Ólafsson íþróttamaður ársins, Róbert Ragnarsson bæjarstjóri og Gunnlaugur Hreinsson formaður UMFG.
Myndir: Guðfinna Magnúsdóttir.