Kílóin hrynja af Scott Ramsay – ?Leit út eins og Jabba the Hutt

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Scott Ramsay, leikmaður Grindvíkinga, hefur losað sig við 14 kíló það sem af er þessu ári. Ramsay var ansi þungur í kringum áramótin en hann ákvað að gera eitthvað í sínum málum.

,,Ég varð að gera eitthvað. Ég var farinn að líta út eins og Jabba the Hutt í Star Wars,” sagði Ramsay hlæjandi í samtali við Fótbolta.net í dag en hann var orðinn 100 kíló í kringum áramót.

,,Ég hef nokkrum sinnum verið þungur í hreinskilni sagt og áður en að ég byrjaði í átakinu var ég meira en 100 kíló, ég viðurkenni það.”

Ramsay tók matarræðið föstum tökum og það hefur strax borið árangur. ,,Ég fékk sérstakt megrunarprógram hjá Helga Jónasi (Guðfinnssyni) körfuboltaþjálfara í Grindavík og það er að virka.”

Ramsay gat ekki æft framan af vetri vegna ökklameiðsla en hann er nú búinn að jafna sig af þeim. Þessi knái leikmaður verður 36 ára á árinu en hann segist eiga nóg eftir.

,,Mér finnst það og ég er að komast í betra form. Keli (Sinisa Valdimar Kekic) er ennþá að spila og hann er 42 ára,” sagði Ramsay að lokum.