Strax eftir leik Stjörnunnar og Grindavíkur í kvöld fóru menn að velta því fyrir sér hvernig Grindvíkingar ætli sér að koma öllum þeim áhorfendum fyrir sem vilja komast á oddaleikinn á sunnudag. Íþróttahúsið í Grindavík, Röstin, er lítið og aðeins ein stúka. Ekki er hægt að koma að fólki fyrir aftan körfurnar og í raun ekki hægt að gera neitt til að bæta við áhorfendum.
Það vilja klárlega fleiri komast á leikinn en munu gera það á endanum. Kemur því til greina að færa leikinn?
„Það kemur ekki til greina að færa leikinn. Það þýðir ekki einu sinni að ræða það. Við ætlum að skrifa nýjan kafla í okkar sögu með því að lyfta titli á heimavelli. Það höfum við aldrei gert áður,” sagði Óli Björn Björgvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Grindavíkur, við Vísi í kvöld en hvað kemur hann mörgum í húsið?
„Við komum um 1.000 manns í húsið þegar þétt er setið. Við gætum líka farið þá leið að láta fólk standa og líklegt að við þurfum að gera það til þess að sem flestir komist á völlinn,” sagði Óli Björn en hann treysti sér ekki til þess að spá um hvað hann kæmi þá mörgum í húsið.
Miðasalan á leikinn hefst á morgun og þá er um að gera að hafa hraðar hendur.
“Við byrjum örugglega með forsölu heima á morgun og Stjarnan fær svo einhverja miða frá okkur. Ég hef samt orðið fyrir miklum vonbrigðum með mætinguna úr Garðabæ. Sérstaklega í fyrsta leiknum en þá mættu mjög fáir Stjörnumenn. Þeir hljóta að vilja samt fjölmenna á sunnudaginn.”
Frétt af Vísi.