Kanalausir Grindvíkingar steinlágu gegn Stólunum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Grindvíkar tóku á móti Tindastólsmönnum í Dominos deild karla í gærkvöldi, en þetta var fyrsti leikur Grindavíkur eftir brotthvarf Eric Wise sem reynir nú fyrir sér í S-Kóreu. Leikmannaglugginn opnast ekki fyrr en á nýju ári sem þýðir að Grindvíkingar verða Kanalausir í síðasta leik ársins sem er útileikur gegn grönnum okkar í Njarðvík.

Fréttaritari síðunnar var forfallaður á leiknum í gær, en Karfan.is hljóp undir bagga með honum og fjallaði um leikinn:

Grindavík engin fyrirstaða fyrir Tindastól

Grindavík og Tindastóll áttust við í Mustard-höllinni í kvöld í Domino’s deild karla en fyrir leikinn voru bæði lið með 8 stig í deildinni eftir 9 leiki. Búast mátti við að á brattan yrði að sækja fyrir Grindvíkinga sem spiluðu án erlends leikmanns þar sem Eric Wise hefur haldið á vit ævintýranna í Suður-Kóreu.

Leikurinn var hraður framan af, fyrstu stigin komu eftir rúmlega 40 sek þegar Darrel Lewis setti niður sniðskot fyrir Tindastól en þetta var jafnframt þriðja sókn Stólanna í leiknum. Jerome Hill bætti við fjórum stigum fyrir Tindastól og Helgi Rafn setti tvö stig eftir mikla baráttu undir körfunni. Sauðkrækingar komnir með 8 stiga forystu eftir tæplega þriggja mínútna leik. Jón Axel setti fyrstu stig Grindavíkur úr vítum eftir að Pétur Rúnar Birgisson braut á honum.

Þegar skammt lifði fyrsta leikhluta kom góður kafli hjá Grindvíkingum þar sem þeir minnkuðu muninn niður í 2 stig með góðri körfu og víti frá Jóhanni Árna. Stólarnir voru ekki tilbúnir að hleypa Grindvíkingum nær og juku forskot sitt í 6 stig áður en leikhlutinn var úti með körfum frá Helgi Freyr og Darrel Flake. Staðan 20-26 fyrir gestina eftir fyrsta leikhluta.

Jón Axel opnaði annan leikhluta með þristi fyrir Grindavík og minnkaði forskot Tindastóls í 3 stig. Jerome Hill var fljótur að svara á hinum enda vallarins og Helgi Rafn bætti við tveimur stigum stuttu seinna eftir fallegt spil Tindastólsmanna. Í kjölfar körfu Páls Axels sem breytti stöðunni í 25-30 kom langur kafli þar sem ekkert gekk upp í sókninni hjá Grindvíkingum, Tindastóll skoraði 16 stig í röð og staðan skyndilega orðin 25-46. Róðurinn því orðinn þungur hjá Grindvíkingum.

Eitthvað hefur verið sagt inni í klefa í hálfleik því Grindavíkingar mættu töluvert sprækari til leiks í síðari hálfleik, Ómar Örn var drjúgur fyrir þá í upphafi hans og skoraði fyrstu 6 stigin fyrir Grindavík. Jafnt var á með liðunum og stigaskorið í leikhlutanum 23-26. Grindvíkingar virtust ekki mæta rétt stemmdir inn á völlin í fjórða leikhluta. Sóknarleikur þeirra gekk illa á móti föstum varnarleik Stólanna og skoruðu þeir einungis 2 stig á fyrstu þremur mínútunum. Baramerki voru á leik Grindavíkur eftir að Jóhann Þór Ólafsson þjálfari þeirra tók leikhlé rétt fyrir miðjan leikhlutan, en þeir náðu þó ekki að minnka muninn og Sauðkrækingar héldu því heim með tvö stig í farateskinu eftir öruggan 23 stiga sigur, 77-100.

Darrel Keith Lewis fór fyrir Tindastólsmönnum, skoraði 24 stig og tók 8 fráköst. Jerome Hill bætti við 19 stigum og reif niður 15 fráköst og Darrell Flake var með 18 stig og 8 fráköst. Þá setti Helgi Freyr niður 5 af 8 þristum sínum í leiknum og endaði með 15 stig.

Hjá Grindavík var Ómar Örn Sævarsson með 12 stig og 5 fráköst og Jóhann Árni, Jón Axel, Hinrik og Þorleifur settu allir 9 stig.

Tölfræði leiks

Stigaskor Grindavíkur: Ómar Örn Sævarsson 12 stig/5 fráköst, Páll Axel Vilbergsson 10 stig, Jóhann Árni Ólafsson 9 stig/6 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 9 stig/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hinrik Guðbjartsson 9 stig, Þorleifur Ólafsson 9 stig, Þorsteinn Finnbogason 7 stig, Ingvi Þór Guðmundsson 6 stig, Daníel Guðni Guðmundsson 6 stig, Kristófer Breki Gylfason 0 stig, Magnús Már Ellertsson 0 stig, Nökkvi Már Nökkvason 0 stig.

Stigaskor Tindastóls: Darrel Keith Lewis 24 stig/8 fráköst, Jerome Hill 19 stig/15 fráköst, Darrell Flake 18 stig/8 fráköst, Helgi Freyr Margeirsson 15 stig, Arnþór Freyr Guðmundsson 8 stig, Helgi Rafn Viggósson 8 stig/7 fráköst, Hannes Ingi Másson 6 stig, Ingvi Rafn Ingvarsson 2 stig, Pétur Rúnar Birgisson 5 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Páll Stefánsson 0 stig, Viðar Ágústsson 0 stig.

Myndasafn (Bára Dröfn)