Grindvíkingar hafa samið við króatíska kantmanninn Juraj Grizwlj en hann hefur hafið æfingar með liðinu. Juraj er 26 ára gamall en hann getur leikið á báðum köntunum sem og framarlega á miðjunni. Grindvíkingar hafa einnig fengið slóvenska varnarmanninn Alen Sutej á reynslu. Sutej lék með Keflavík 2009 og 2010 áður en hann gekk til liðs við FH.
Þar var Sutej að glíma við erfið meiðsli en hann náði ekki að spila neinn mótsleik áður en hann yfirgaf herbúðir Fimleikafélagsins í fyrra.
Sutej æfir þessa dagana með Grindavík en hann mun fara með liðinu í æfingaferð á fimmtudag.
,,Hann var meiddur hjá FH og við ætlum að prófa hann. Hann fer með okkur til Alicante á Spáni og ef hann verður í lagi þá kemur hann aftur með okkur til Íslands,” sagði Milan Stefán Jankovic þjálfari Grindvíkinga í samtali við Fótbolta.net í dag.