Jón Axel og félagar í úrslitin í háskólaboltanum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Jón Axel Guðmundsson og félagar hans í Davidson háskólanum náðu sögulegum árangri um helgina þegar þeir tryggðu sér sæti í úrslitakeppni bandaríska háskólaboltans. Sætið tryggðu þeir með sigri á Rhode Island í úrslitaleik Atlantic-10 deildarinnar, en lokatölur leiksins urðu 58-57. Jón Axel var einn af þremur leikmönnum liðsins sem lék allar 40 mínúturnar í leiknum og skilaði 9 stigum, 7 fráköstum, 4 stoðsendingum og 2 stolnum boltum.

Úrslitakeppnin gengur undir heitinu “March Madness” sem útleggst á íslensku sem “mars geðveikin”. Þar mætast 68 bestu liðin í háskólaboltanum í útsláttarfyrirkomulagi, en fyrsti leikur Davidson er annað kvöld kl. 23:15, þar sem þeir mæta gríðarsterku liði Kentucky skólans. Kentucky skólinn er sigursælasta liðið í sögu NCAA deildarinar og árlega koma fjölmargir sterkir leikmenn inn í NBA deildina frá skólanum. Hægt er að fylgjast með leiknum í gegnum ESPN vefspilarann.

Jón Axel var með góðan stuðning af pöllunum í leikjum helgarinnar en góður hópur fjölskyldu og ættmenna héldu vestur um haf til að fylgjast með leiknum og samkvæmt okkar heimildum framlengdu foreldrar hans dvölina og verða meðal áhorfenda í leiknum á morgun einnig. Við óskum Jóni að sjálfsögðu góðs gengis í leiknum á morgun!

Víkurfréttir tóku skemmtilegt viðtal við Jón Axel eftir sigurleikinn.

ESPN birtu svo þetta myndband til að hita upp fyrir úrslitin, en þar kemur Jón Axel fyrir, enda er kappinn að vekja mikla athygli, bæði fyrir frammistöðu sína á vellinum en líka fyrir nafnið, sem sumir þulir eiga erfitt með að bera fullkomlega fram.