Grindvíkingar hófu leik í Dominosdeild karla í gærkvöldi gegn liði FSu á Selfossi. Grindvíkingar eru án erlends leikmanns þar sem Hector Harold var sendur heim á dögunum og Eric Wise hefur ekki fengið leikheimild. Nýliðar FSu mættu dýrvitlausir til leiks og ætluðu greinilega að sanna að þeir ættu fullt erindi í þessa deild og voru okkar menn í stökustu vandræðum með þá í fyrri hálfleik þar sem heimamenn voru að hitta virkilega vel.
Mestu varð munurinn 13 stig um miðjan 2. leikhluta en í hálfleik var staðan 51-45. Grindvíkingar gerðu þá nokkrar tilfæringar í vörninni sem gerði það að verkum að hún þéttist umtalsvert og í kjölfarið söxuðu þeir á forskot heimamanna sem höfðu þó yfirhöndina fram á lokamínúturnar og voru þá 3 stigum yfir, 84-81. En síðustu 4 stig leiksins voru Grindvíkinga. Ómar setti niður tvö víti svellkaldur á línunni og setti síðan niður sniðskot eftir klaufagang í sókinni hjá FSu sem tryggði sigurinn, 84-85. Jón Axel gaf stoðsendingu í síðustu körfunni og endaði í kjölfarið með 16 stig, 10 fráköst og 10 stoðsendingar og þar af leiðandi með fyrstu þreföldu tvennu deildarinnar í vetur og jafnframt sína fyrstu í deildinni.
Karfan.is var á staðnum og tók viðtöl við Jóhannana tvo í Grindavík.
Hörður Tulinius tók meðfylgjandi mynd fyrir Körfuna (myndasafn á Facebook)