Jón Axel leikmaður vikunnar í háskólaboltanum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Tímabilið byrjar vel hjá Jóni Axel Guðmundssyni í bandaríska háskólaboltanum en hann var valinn leikmaður vikunnar í liðinni viku. Jón átti fantagóðan leik í sigri Davidson skólans á Charleston Southern, 110-62, og var hárbreidd frá því að næla sér í þrefalda tvennu. Jón skoraði 24 stig, tók 9 fráköst og gaf 8 stoðsendingar og kórónaði svo sína frammistöðu með því að tapa boltanum aldrei.

Jón Axel, sem fæddur er árið 1996, var að hefja sitt annað tímabil ytra en síðastliðinn vetur lék hann 31 leik með Davidson og var í byrjunarliðinu í 29 þeirra. Í fyrra var hann með rúm 8 stig að meðaltali í leik, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.