Jón Axel fer vel af stað með Davidson háskólanum

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Jón Axel Guðmundsson fer vel af stað með liði sínu hjá Davidson háskólanum í bandaríska háskólaboltanum. Jón var í byrjunarliðinu í fyrsta leik, skoraði 13 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á aðeins 23 mínutum. Lokatölur leiksins urðu 104-58, Davidson í vil. Tölfræði leiksins má lesa hér.

Jón var í nokkuð ítarlegu viðtali hjá Karfan.is á dögunum sem má lesa hér að neðan:

„Fannst ég lenda á vegg!”

Jón Axel Guðmundsson og Davidson háskólinn taka í nótt á móti Belmont Abbey í undirbúningsleik í bandaríska háskólaboltanum. Vestanhafs styttist nú óðar í deildarkeppninnar og liðin þessi dægrin að spila sína fyrstu upphitunarleiki. Karfan.is ræddi við Jón Axel sem segir lítinn tíma fyrir annað en að æfa og læra þessi dægrin. Hann segir einnig muninn á Íslandi og Bandaríkjunum var gríðarlega mikinn.

„Fyrstu mánuðirnir fara bara vel af stað. „Preseasonið” byrjaði um leið og ég kom hingað og mér fannst ég eiginlega bara lenda á vegg. Öll hlaupin og lyftingarnar sem við gerðum er eitthvað sem maður er ekki vanur heima. Fyrsta vikan einkenndist af mikilli þreytu en líkaminn var fljótur að venjast nýju aðstæðunum. Það er mjög mikið lagt upp með að æfa aukalega og sinna öllu sem tengist körfunni svo að árangurinn verði sem mestur,” sagði Jón Axel sem er að skjóta umtalsvert meira þessi dægrin en hann hefur áður gert.

„Hjá okkur er regla að þú verður að hitta fjórum sinnum í viku tvöhundruð skotum aukalega og skrá það niður og ef þú gerir það ekki þá áttu refsingu inni hjá þjálfaranum sem þú villt ekki enda á að þurfa að gera. Það fer því alltaf mjög stór partur af deginum að vera í köfubolta og svo auðvitað skólanum og því líða dagarnir mjög hratt. Þetta er allt annað en á Íslandi þar sem þú kemst upp með að eiga slappa æfingu og vera þreyttur og taka því rólega á henni, það virkar ekkert þannig hér það eru 3-4 góðir leikmenn í þinni stöðu og ef þú mætir ekki 110% á hverja æfingu þá ertu bara að missa spilatíma þannig maður reynir að hafa alltaf orku á tankinum þegar æfingatiminn er því þú veist að spilatíminn er í þínum höndum og þú verður bara að vera tilbúinn að leggja þig allan fram til þess að fá hann.”

Hefur spilað helling upp á síðkastið

Gibbs, einn af sterkustu leikmönnum Davidson um þessar mundir, hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið og þar af leiðandi hefur komið meira til kasta okkar manns.

„Ég hef fengið byrjunarliðssæti og verið að spila í kringum 30 minutur og staðið mig bara vel. Boltinn sem er spilaður hér er allt öðruvisi en heima og áherslurnar eru allt öðruvísi. Ég er að ná aðlaga leikinn minn meir og meir gagnvart US stílnum með hverjum deginum en það sem hjálpar mér mikið er að í liðinu er um helmingurinn af liðinu frá öðrum löndum svo þeir hafa gert þetta áður og leiðbeina mér. Bandarísku leikmennirnir eru mjög hraðir og duglegir en það sem við Evrópumennirnir höfum er IQ (insk. blaðamanns – greindarvísitala, eða körfuboltagreind).”

Allir tilbúnir að hjálpa

„Skólinn er frekar erfiður þar sem það er mjög nýtt fyrir mér að læra á ensku og svo er svo takmarkaður tími sem maður hefur í heimanám og annað slíkt, en það góða við að vera í Bandaríkjunum er að allir eru tilbúnir að hjálpa þér. Fyrir utan að spila körfuboltann er þetta mjög gaman. Sérstaklega að fá að vera partur af Davidson samfélaginu en körfubolti er tekinn mjög alvarlega hér í bænum. Þjálfarinn er frábær, en mér finnst ég vera að læra nýja hluti á hverjum degi. Mér finnst hann hafa mikla trú á mér og gefur mér góð tækifæri til að sanna mig. Það er mikill stemming og spenna í liðinu að fara að byrja tímabilið en liðið í heildina smellur alveg ótrúlega vel saman en það er búið að vera erfitt að fylgjast með boltanum heima þar sem mig langar bara að byrja að spila,” sagði Jón Axel sem í vetur mun m.a. leika gegn hinum sögufræga North Carolina skóla þar sem m.a. sjálfur Michael Jordan ól manninn.

„Við erum með mjög breiðan hóp og marga leikmenn sem geta skilað miklu efforti á báðum endum vallarins. Fyrsti “official” æfingaleikurinn er núna í kvöld en svo hefst NCAA riðillinn okkar 12. nóvember. Í desember spilum við svo á móti skólum back-to-back. Meðal skólanna sem við keppum á móti er UNC sem eru rankaðir númer 6 í landinu og Kansas sem eru rankaðir númer 3. Þannig það eru bara spennandi og tímar framundan þar sem ég fæ að spila á móti top leikmönnum í Bandaríkjunum en það verður gaman að sjá hvar maður stendur miða við þá.”

Keppnisdagskrá Davidson í vetur

Á A10 Network er svo hægt að kaupa áskrift og horfa á alla heimaleiki Davidson í vetur