Jóhannes gerður að heiðursfélaga UMFG

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Jóhannes Haraldsson júdóþjálfari hjá júdódeild UMFG var gerður að heiðursfélaga UMFG á kjöri íþróttamanns og íþróttakonu ársins í Hópsskóla á gamlársdag. Jóhannes hefur bæði keppt í júdó og þjálfað hjá UMFG í rúma fjóra áratugi og lagt grunninn að glæsilegum árangri grindvískra ungmenna í þessari íþróttagrein.

Bjarni Már Svavarsson formaður UMFG fór yfir feril Jóhannesar við athöfnina og sagði m.a.:

,,Jóhannes eða Jói júdó eins og hann er ávallt kallaður kom til Grindavíkur árið 1971 og byrjaði strax að þjálfa júdó þannig að nú hefur júdódeildin starfað í 41 ár og alltaf undir forystu Jóa. Fyrst æfðu menn júdó í Festi og síðar í gamla íþróttahúsinu sem var við Grunnskóla Grindavíkur og er nú búið að rífa. Aðstaðan sem hann hefur núna er í anddyri íþróttahússins sem varla telst viðunandi enda stendur til að bæta verulega þar úr á næstunni.

Fyrstu dýnurnar sem komu til Grindavíkur borgaði Jói úr eigin vasa sem síðar var dregið af gjöldum til bæjarins en hann hafði fengið loforð um styrk til kaupanna. En þegar til átti að taka var ekki til peningur til að leysa dýnurnar út þannig að hann greiddi þær bara sjálfur.

Jói byrjaði að keppa í júdó þegar hann var ungur í Reykjavík og keppti fyrst fyrir Glímufélagið Ármann. Hann keppti fyrst fyrir Grindavík 1972 og varð Íslandsmeistari. Síðan þá hefur júdódeild UMFG átt Íslandsmeistara í einhverjum flokki á hverju ári eftir það,” sagði Bjarni.

Jafnframt kom fram hjá Bjarni að Jóhannes hefur margsagt það að hans aðal markmið er að halda áfengi og tóbaki frá unglingunum sem æfa hjá honum.