Jóhann Ólafs og Gummi Braga taka við liði meistaraflokks karla

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir, Körfubolti

Körfuknattleiksdeild UMFG kynnti í dag til leiks nýjan þjálfara og aðstoðarþjálfara meistaraflokks karla. Þessa tvo heiðursmenn þarf auðvitað ekki að kynna fyrir neinum Grindvíkingi, en Jóhann Ólafsson verður aðalþjálfari liðsins og honum til aðstoðar verður Guðmundur Bragason. Jóhann hefur undanfarin ár verið aðstoðarþjálfari liðsins og færir sig því um einn rass á bekknum. Þá er Guðmundur ekki ókunnur þjálfun Grindavíkurliðsins en hann var spilandi þjálfari leiktíðina 93-94 og svo aftur 98-99.

Þeir félagar eru báðir miklir reynsluboltar úr deildinni þó svo að Jóhann hafi þurft að leggja skóna á hilluna grátlega snemma sökum þrálátra meiðsla. Gummi er svo einhver ástsælasti leikmaður Grindvíkinga frá upphafi en hann á bæði flest fráköst og varin skot í sögu úrvalsdeildinnar. Við óskum Grindvíkingum öllum til hamingju með þessa ráðningu.

Um leið og skrifað var undir samninga við þjálfarana var styrktarsamningur við VÍS endurnýjaður.