Jóhann farinn í KA

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Jóhann Helgason sem hefur verið lykilmaður Grindavíkurliðsins í knattspyrnu undanfarin ár var um helgina lánaður í eitt ár til uppeldisfélags síns, KA. Hann fetar í fótspor Orra Freys Hjaltalíns sem yfirgaf Grindavík og fór í uppeldisfélag sitt Þór Á Akureyri fyrir skömmu.

,,Mér fannst vera kominn tími á að spila aftur með mínu uppeldisfélagi og það er minn vilji að taka þátt í því af krafti að rífa klúbbinn upp á þann stall sem ég tel að hann eigi að vera,” sagði Jóhann Helgason í viðtali við heimasíðu KA eftir að hafa gengið til liðs við félagið á láni frá Grindavík í gær.

Jóhann er uppalinn hjá KA en hann hefur leikið með Grindvíkingum síðan sumarið 2007. Jóhann segir að stefnan sé að koma KA aftur upp í efstu deild.

,,Vissulega er ég af mikilli KA-fjölskyldu og ég neita því ekki að hafa orðið fyrir töluverðum þrýstingi úr ýmsum áttum að koma aftur og spila með KA. Mér finnst ég núna merkja mikinn metnað hjá félaginu að gera góða hluti í fótboltanum og ég hef fulla trú á því sem er verið að gera.”

,,Ég er ekki að koma í KA til þess að slappa af, ég vil og ætla mér af krafti að leggja mitt af mörkum til þess að koma félaginu á réttan stað. Ég tel enga ástæðu til annars en að stefna að því næsta sumar að koma KA upp í efstu deild. Þar á klúbburinn heima. Til þess að það geti gerst þurfa allir að leggjast á eitt – þjálfarar, leikmenn, stjórn, bakhjarlar og síðast en ekki síst stuðningsmenn. Nú verða allir að taka þátt af krafti í þessu átaki.”

,,Auðvitað er 1. deildin mjög sterk. Gamlir refir eru þar komnir inn í þjálfun og því má búast við mjög skemmtilegu tímabili næsta sumar. En þetta er mikil og skemmtileg áskorun sem ég hlakka mikið til að taka þátt í. Það verða nokkur lið sem berjast um að fara upp og í mínum huga er alveg klárt að KA verður eitt þeirra liða.”

KA hefur verið að styrkja sig með nýjum leikmönnum í vetur og Jóhanni líst vel á leikmannahóp liðsins.

,,Það hefur auðvitað haft sitt að segja í þeirri ákvörðun minni að koma aftur norður að gamlir refir af þessari kynslóð eru nú farnir að spila með KA-liðinu á nýjan leik – t.d. Gunnar Valur Gunnarsson og Elmar Dan Sigþórsson og vonandi nær Andrés Vilhjálmsson sér af sínum meiðslum þannig að hann geti hjálpað okkur í baráttunni næsta sumar. Í mínum huga er afar mikilvægt að fá þessa kynslóð aftur inn í KA-liðið. Við eigum að geta miðlað af okkar reynslu til ungu strákanna, sem skiptir miklu máli og það hefur líka sitt að segja að þetta eru allt uppaldir KA-menn sem eru með hjartað á réttum stað og tilbúnir í ýmislegt fyrir klúbbinn.”

Jóhann mun æfa í Grindavík fram í maí þegar hann flytur á Akureyri. Jóhann mun leika með KA í undirbúningsmótunum fyrir sumarið en hann segist vera í góðu formi.

,,Sjálfur tel ég mig vera í toppstandi. Ég er á besta aldri sem fótboltamaður – 28 ára á þessu ári. Það er frábær tilfinning að ganga frá þessum samningi við KA í dag og eftirvæntingin er gríðarleg að spila fyrir félagið á nýjan leik. Ég skora bara á alla sanna stuðningsmenn KA að taka þátt í þessu með okkur leikmönnunum, mæta vel á alla leiki og búa til alvöru stemningu í kringum liðið. Ef allir leggjast á eitt er ýmislegt hægt,” sagði Jóhann í viðtali á heimasíðu KA.

Æfingaleikur gegn ÍA:
Grindavík sigraði ÍA í æfingaleik um helgina 4-1 en þetta var annar stórsigur liðsins í röð. Mörk Grindavíkur skoruðu: Pape Mamadou Faye 2, Matthías Örn Friðriksson og Magnús Björgvinsson.