Lið Grindavíkur í Dominosdeild karla hafa orðið fyrir stórri blóðtöku en komið hefur í ljós að Jóhann Árni Ólafsson er með brjósklos sem og klemmda taug og verður því frá keppni eitthvað fram yfir áramót. Jóhann hefur verið að glíma við eymsli í læri í haust og ekki tekið þátt í síðustu tveimur leikjum Grindavíkur.
Við læknisskoðun kom brjósklosið í ljós, sem og sprunga í lífbeini, svo það er ljóst að Jóhann þarf að taka sér gott frí og fara í töluverða endurhæfingu til að ná fyrri heilsu áður en hann snýr aftur á völlinn. Í samtali við mbl.is ítrekaði Jóhann að allt væri enn á huldu með endurkomu, en samkvæmt bjartsýnustu spám gæti hann snúið aftur í janúar eða febrúar, en það er a.m.k. ljóst að Jóhann spilar ekki meira í ár.
Er þetta í fyrsta skipti á meistaraflokksferli Jóhanns sem hann missir úr leiki vegna meiðsla og vonandi verður hann fljótur að jafna sig. Þeir Jóhann og Þorleifur Ólafssynir (þó ekki bræðurnir) koma vonandi sterkir til baka í vor, og verða komnir í góðan gír þegar úrslitakeppnin byrjar.
Mynd: karfan.is