„Hlutirnir bara gengu upp. Við vorum að stoppa þá og skora hinum megin í fáránlega erfiðri aðstæðu. Sammy (Zeglinski) og Siggi (Sigurður Gunnar Þorsteinsson) voru báðir komnir með fjórar villur og höfðu spilað þannig næstum því allan fjórða leikhluta,” sagði kampakátur Jóhann Árni Ólafsson við Vísi eftir sigurinn gegn Stjörnunni í gærkvöldi.
Leikurinn var afar kaflaskiptur þar sem bæði lið áttu frábæra spretti og skildu andstæðinga sína eftir í rykinu. Jóhann Árni virtist alltaf eiga ás uppi í erminni líkt og Aaron Broussard sem fór á kostum.
„Þetta eru tvö hörkulið að spila þessa íþrótt. Íþróttin er svona, áhlaup fram og tilbaka, enda menn í báðum liðum sem geta hitt úr mörgum skotum í röð. Svona verður þetta örugglega í allri seríunni, líf og fjör.”
Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, sagði í viðtali við Fréttablaðið að sigurlíkur Grindvíkinga stæðu og féllu með framlagi Jóhanns Árna og Þorleifs Ólafssonar.
„Ég geri mér grein fyrir því að við Lalli þurfum að spila mjög vel eins og margir aðrir,” sagði Jóhann Árni um ábyrgð þeirra Lalla. Þorleifur þarf þó að stilla miðið fyrir utan fyrir leikinn á föstudagskvöldið en hann hitti loks í sinni sjöttu tilraun.
Ryan Pettinella fór veikur heim eftir upphitun með ælupest. Þá fékk Sigurður Gunnar Þorsteinsson sína fjórðu villu í þriðja leikhluta og góð ráð dýr hjá Grindvíkingum undir körfunni. Ekki bætti úr skák að Ómar Sævarsson féll á lyfjaprófi í vetur og má því ekki leika.
„Þetta er í fyrsta skipti sem við lendum í þessari stöðu þau tvö ár sem ég hef verið í Grindavík. Við höfum alltaf verið með Ryan og Ómar á bekknum en allt í einu voru þeir horfnir á braut á einu bretti,” sagði Jóhann Árni.
Þrátt fyrir að Stjarnan hefði betur í fráköstunum 40-34 í kvöld var stórsigur Grindavíkur niðurstaðan.
„Þetta háði okkur ekki í dag en ég vona að Ryan (Pettinella) og Siggi (Sigurður Gunnar Þorsteinsson) verði meira með í seríunni, hvorki í villuvandræðum né veikir,” sagði Jóhann Árni.