Grindvíkingar hafa fengið til liðs við sig nýjan erlendan leikmann sem mun leysa Rashad Whack af hólmi. Hinn nýji leikmaður er Grindvíkingum sem og íslenskum körfuknattleiksunnendum að góðu kunnur, en það er enginn annar en J’Nathan Bullock. Bullock lék með Grindvíkingum tímabilið 2011-2012 og var lykilmaður í liði Grindavíkur sem landaði bæði deildarmeistaratitli og Íslandsmeistaratitli. Bullock skoraði 21,4 stig og tók 9,6 fráköst það tímabilið og liðið vann 19 af 22 leikjum sínum í deildinni.
Bullock fór til Finnlands frá Grindavík á sínum tíma og hefur svo leikið í Ísrael og Írak og núna síðast á Filipseyjum, en tímabilið þar klárast að hausti. Ætti kappinn því að vera í þokkalegu leikformi. Við bjóðum Bullock velkominn aftur “heim” en næsti leikur Grindavíkur er útileikur gegn Þór í Þorlákshöfn þann 5. janúar.