Janko ráðinn yfirmaður knattspyrnumála UMFG

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Knattspyrna

Knattspyrnudeild Grindavíkur skrifaði í dag undir 3ja ára samning við Milan Stefán Jankovic sem yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu. Í fréttatilkynningu frá deildinni kemur fram að starf Janko felist m.a. í því að efla gæði þjálfunar hjá félaginu á öllum stigum, sjá um afreksþjálfun allra flokka frá 5. aldursflokki, sinna aukaæfingum og verður báðum meistaraflokkum  innan handar í því starfi sem þar fer fram. 
 
Janko þarf svo sem ekki að kynna mikið fyrir ykkur fótboltaáhugamönnum. Hann er gríðarlega fær þjálfari eins og allir vita og er með UEFA pro menntun sem er hæsta gráða sem þjálfari getur fengið hjá UEFA. Við bjóðum Janko okkar innilega velkominn til starfa hjá Grindavík.

Við óskum Janko og knattspyrnudeildinni til hamingju með ráðninguna en Grindavík er fyrsta knattspyrnufélagið á Íslandi til að ráða sérstaklega í stöðu yfirmanns knattspyrnumála. 

Gunnar Már Gunnarsson, formaður knattspyrnudeildar UMFG sagði í samtali við heimasíðuna að tilgangur ráðningarinnar væri að efla bæði gæði þjálfunar á öllum stigum með það að markmiði að auka og efla knattspyrnulega hæfni einstaklinga innan félagsins. “Ég talaði um það í ræðu minni á lokahófinu að það væri oft langt á milli árganga sem koma upp hjá okkur og því þörf á að fá mikinn utanaðkomandi styrk þegar við erum að spila í efstu deild.  Með þessu vonast ég til að það bil minnki á komandi árum”, sagði Gunnar Már, formaður knattspyrnudeildar UMFG.