Síðastliðinn föstudag mættust á Grindavíkurvelli okkar menn í Grindavík og Breiðhyltingarnir í Leikni, en fyrir leikinn sátu þeir í toppsætinu meðan Grindvíkingar reyna að rífa sig frá botnbaráttunni. Leikurinn, sem sýndur var beint á SportTV, fór ekki vel af stað fyrir heimamenn en eftir aðeins 20 mínútna leik var staðan orðin 0-2 fyrir gestina.
En þá hrukku okkar menn í gang og sögðu hingað og ekki lengra. Strax á 22. annarri mínútu minnkaði Juraj Grizelj muninn með marki úr vítaspyrnu og Magnús Björgvinsson jafnaði svo metin 20 mínútum seinna, en þar við sat og enduðu leikar 2-2.
Er það mál manna að Grindavíkurliðið hafi sýnt sína bestu spilamennsku í sumar frá 22. mínútu þessa leiks. Því miður tókst þó ekki að landa öllum þremur stigunum, en eitt er alltaf betra en ekki neitt. Enn er nóg eftir af mótinu og næsti leikur er útileikur á móti Skagamönnum næsta fimmtudag.