Grindavík og Höttur skildu jöfn 2-2 á Grindavíkurvelli í gærkvöldi í 1. deild kvenna. Grindavík náði sér ekki á strik í fyrri hálfleik og Höttur skoraði tvö ansi ódýr mörk.
En í seinni hálfleik stjórnaði Grindavík leiknum og skapaði sér fullt af fínum færum. Margrét Albertsdóttir minnkaði muninn á 52. mínútu eftir frábæra sókn og Ágústa Jóna Heiðdal fyrirliði jafnaði metin á 65. mínútu. Þrátt fyrir fleiri dauðafæri tókst Grindavík ekki að knýja fram sigur.
Grindavík lék án Ölmu Rutar Garðarsdóttur sem braut rifbein og var hennar sárlega saknað í vörninni.
Staðan í B-riðli er þannig að Völsungur er í efsta sæti með 9 stig en Grindavík og Höttur jöfn í 2.-3. sæti með 7 stig en þau eiga bæði leik til góða á Völsung.