Jafntefli á Sjóaranum síkáta

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindavík og topplið ÍA skildu jöfn 2-2 í Pepsideild karla fyrir framan 1534 áhorfendur á hátíðarhöldum Sjóarans síkáta. Úrslitin voru nokkuð sanngjörn en engu að síður fékk Grindavík mun opnari færi í leiknum til að hirða stigin þrjú.

Grindvíkingar mættu mjög ákveðnir til leiks og voru mun betri aðilinn framan af fyrri hálfleik. Þeir uppskáru svo mark á 34. mínútu þegar Tomi Ameobi fékk boltann í miðjum teig Skagamanna eftir langt innkast,
Hann tók boltann laglega á bringuna og klippti hann í netið, óverjandi fyrir Pál Gísla í marki Skagamanna. Eftir markið vöknuðu skagamenn til lífsinns og unnu sig inn í leikinn jafnt og þétt.

Á síðustu mínútu hálfleiksins náðu þeir svo að jafna leikinn þegar Jón Vilhelm Ákason skallaði boltann í netið eftir að Ármann Smári hafði skallað aukaspyrnu Jóhannesar Karls til hans.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks í seinni hálfleik og var nokkuð jafnræði með liðunum framan af hálfleiknum.

Grindvíkingar náðu svo að skora á 63. mínútu eftir að Tomi Ameobi fékk boltann við miðju og rauk af stað upp völlinn. Sóknin virtist svo vera að renna út í sandinn þegar boltinn barst á Ray Anthony Jónsson sem átti glæsilega fyrirgjöf á kollinn á varamanninum Pape Mamadou Faye sem stýrði boltanum í fjær hornið.

Það sem eftir lifði leiks voru Skagamenn betri aðilinn og þeir fengu dauðafæri þegar Gary Martin komst einn gegn Óskari en lét verja frá sér.

Sóknartilburðir Skagamanna báru svo loks árangur á 85. mínútu þegar boltinn barst út úr teignum fyrir fætur Mark Doningar sem skaut boltanum gegnum þvöguna í fjærhornið framhjá Óskari í markinu.

Skagamenn voru svo sterkari aðilinn það sem eftir lifði og voru í tvígang nærri því að skora. Fyrst þegar Jón Vilhelm átti þrumuskot sem Óskar varði með miklum tilþrifum.

Á lokaandartökum leiksins bjargaði svo Ólafur Örn Bjarnason á línu eftir að Óskar hafði kýlt boltann út úr teignum fyrir fætur Ármanns Smára sem skaut að marki en Ólafur las þetta vel og var kominn niður á línu og bjargaði vel.

Mikið batamerki var á leik Grindvíkinga í þessum leik frá því sem verið hefur og líklegt að fyrsti sigur þeirra sé á næsta leiti ef þeir ná að halda þessu áfram. Annars heilt yfir nokkuð sanngjörn úrslit þó svo að bæði lið hafi eflaust viljað fá meira út úr leiknum. (Visir).