ÍSLANDSMEISTARAR!

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavík varð Íslandsmeistari í þriðja sinn með því að leggja Stjörnuna að velli í Röstinni 79-74 í oddaleik liðanna í úrslitum úrvalsdeildar karla. Þar með tókst Grindavík að verja titilinn eftirsótta og tryggja sér hann á heimavelli í fyrsta skipti.

Þá varð Sverrir Þór í kvöld fyrstur þjálfara til þess að gera öll þrjú Suðurnesjaliðin að Íslandsmeisturum í meistaraflokki, fyrst Keflavíkurkonur, svo Njarðvíkurkonur og nú Grindavíkurkarlar.  

Stjarnan byrjaði betur og komst í 9-0 en þá hrukku Grindvíkingar í gírinn og höfðu fjögurra stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 20-16. Stjarnan missti Jarrid Frye meiddan af velli í öðrum leikhluta og hann kom ekki meira við sögu. Grindavík hafði átta stiga forskot í hálfleik 41-33.

Grindavík tókst að halda 10 stiga forskoti út þriðja leikhluta. En Stjarnan gafst ekki upp og Sæmundur Valdimarsson jafnaði metin 70-70 þegar tvær mínútur voru eftir. En þá komu sex stig frá Grindavík í röð og Aaron Broussard kláraði svo leikinn fyrir Grindavík á lokasprettinum.

Mikil fagnaðarlæti brutust út í Röstinni í leikslok, frábærri rimmu tveggja frábærra liða var lokið og Grindavík ÍSLANDSMEISTARI í þriðja sinn.

Þorleifur Ólafsson fyrirliði Grindavíkur hampaði Íslandsmeistarabikarnum og allt ætlaði um koll að keyra í Röstinni. Grindavík var vel að  titlinum komið, liðið var deildarmeistari og aðeins sannir meistarar snúa erfiðri stöðu sér í vil eins og Grindavík gerði með því að lenda undir 2-1 í einvíginu en vinna það 3-2.

Grindavík-Stjarnan 79-74 (20-16, 21-17, 21-19, 17-22)

Grindavík:  Aaron Broussard 25/9 fráköst/5 stoðsendingar, Samuel Zeglinski 21/6 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 12/11 fráköst/7 varin skot, Þorleifur Ólafsson 9/6 fráköst, Davíð Ingi Bustion 5, Jóhann Árni Ólafsson 4/4 fráköst, Ólafur Ólafsson 3, Ryan Pettinella 0, Björn Steinar Brynjólfsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Jón Axel Guðmundsson 0, Daníel G. Guðmundsson 0.