Íris Eir Ægisdóttir skoraði þrennu fyrir Grindavík þegar þær gulklæddu sigruðu Tindastól 5-2 í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Eftir erfiða byrjun hafa Grindavíkurstelpur heldur betur rétt úr kútnum en reyndar á liðið ekki möguleika á sæti í úrslitakeppninni.
Grindavík teflir fram mikið breyttu liði frá því í fyrra þegar það féll úr Pepsideildinni. Íris Eir fór m.a. í Keflavík en kom aftur í félagaskiptaglugganum í júlí og átti sannkallaðan stórleik í gær. Þórkatla Sif Albertsdóttir skoraði hin tvö mörk Grindavíkurliðsins sem lék virkilega vel í þessum leik.
Grindavík er í 4. sæti í B-riðli 1. deildar með 16 stig eftir 12 umferðir en tvær umferðir eru eftir.