ÍR-ingar heimsóttu Röstina í gærkvöldi og fyrirfram bjuggust eflaust sumir við hörkuleik. Hver einasti leikur hjá ÍR er upp á líf og dauða þeirra í deildinni en þeir eru í harðri fallbaráttu. Þeir unnu Keflavík í síðasta leik og á dögunum voru þeir býsna nálægt því að vinna topplið KR-inga og því ljóst að þeir eru til alls líklegir. Okkar menn máttu heldur ekki við því að tapa enda sæti í úrslitakeppninni langt frá því að vera tryggt.
Leikurinn hófst þó ekki gæfulega hjá gestunum sem misstu einn af sínum sterkustu mönnum, Matthías Orra Sigurðarson, í meiðsli eftir rúmlega 5 mínútna leik. Í upphafi seinni hálfleiks bættist Sveinbjörn Claessen svo einnig á sjúkralistann og settu Grindvíkingar í fluggír og kláruðu leikhlutann 34-8. Staðan fyrir lokaleikhlutann var því 77-44 og leikurinn í raun búinn. Mestur varð munurinn 42 stig áður en ÍR-ingar náðu aðeins að laga stöðuna í lokin meðan Grindvíkingar hvíldu sína lykilmenn og leyfðu yngri og óreyndari mönnum að næla sér í mínútur.
Stigahæstur Grindvíkinga var Rodney Alexander með 21 stig og 9 fráköst en næstir komu þeir Oddur Rúnar og Daníel Guðni sem létu þristunum rigna. 4/7 og 5/8 og enduðu með 18 og 17 stig. Þá reif Ómar niður 15 fráköst og Jón Axel stal 6 boltum.
“Flottur liðssigur þar sem allir voru að koma inn af krafti og stigaskorið dreifðist vel hjá okkur,” sagði Sverrir Þór, þjálfari Grindavíkur eftir leikinn. “Stutt eftir af deildinni og því eru þetta 2 dýrmæt stig sem við náðum í með þessum sigri.
Nánar má lesa um leikinn á karfan.is
Mynd: Daníel Guðni Guðmundsson með einn silkimjúkan í leik gegn Skallagrími fyrr í vetur, en þá skaut hann einmitt líka 5/8 fyrir utan þriggja stiga línuna.