Ingibjörg snýr aftur

Ungmennafélag GrindavíkurÍþróttafréttir

Grindavíkurkonur halda áfram að bæta við sig sleggjum því nú er Ingibjörg Jakobsdóttir á leið í heimahagana á nýjan leik. Ingibjörg sem síðustu ár hefur verið á mála hjá Keflavík sem og í Danmörku er því annar liðsmaður Keflavíkur til þess að skipta yfir í gult en Pálína María Gunnlaugsdóttir samdi við Grindvíkinga á dögunum.

Ingibjörg lék upp yngri flokkana með Grindavík og steig sín fyrstu spor í meistaraflokki þar á bæ. Hin síðustu ár hefur hún verið þónokkuð frá vegna meiðsla en gæti reynst Grindvíkingum afar dýrmæt ef hún kemst í fyrra horf. Ingibjörg náði 13 leikjum með Keflavík á síðasta tímabili en hún kom seint inn í liðið þar sem hún var að flytjast búferlum frá Danmörku til Íslands.

Ágústa Inga Sigurgeirsdóttir fulltrúi í kvennaráði KKD Grindavíkur sagði í snörpu samtali við Karfan.is að það væri mjög gaman þegar leikmenn kæmu aftur til uppeldisfélagsins. „Ingibjörg er flott viðbót við glæsilegan leikmannahóp okkar,” sagði Ágústa.