Grindvíkingurinn Ingibjörg Sigurðardóttir var í gær valinn í 23 manna lokahóp fyrir Evrópumeistaramót kvenna sem fram fer í Hollandi, en fyrsti leikur liðsins er gegn Frökkum þann 18. júlí. Ingibjörg er næst yngsti leikmaður liðsins, fædd 1997, en hún lék sína fyrstu A-landsleiki í sumar. Hún á að baki 15 leiki með U19 landsliðinu, 14 með U17 og 3 með U16.
Ingibjörg hefur undanfarin ár leikið með Breiðabliki við góðan orðstír en hún lék síðast með Grindavík sumarið 2012 og lék einnig fjóra leiki með liðinu í efstu deild 2011, þá aðeins 14 ára gömul.
Við óskum Ingibjörgu til hamingju með landsliðssætið og óskum liðinu góðu gengi á EM í sumar.