Ingibjörg Jakobsdóttir, bakvörður í bikarmeistaraliði Grindavíkur í körfubolta, var ein þeirra sem runnu á dúknum í Laugardalshöllinni um síðustu helgi. Ingibjörg fór meidd af velli um tíma í úrslitaleiknum gegn Keflavík en tókst þó að koma aftur inn á og ljúka leiknum þar sem Grindavík fagnaði sigri, 68:61.
Meiðsli Ingibjargar virðast ekki ætla að draga dilk á eftir sér að sögn Sverris Þórs Sverrissonar, þjálfara Grindavíkur. Þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær sagði Sverrir að Ingibjörg hefði ekki æft með liðinu eftir bikarúrslitaleikinn vegna lærmeiðslanna en ekki væri útlit fyrir annað en að hún gæti spilað næsta leik.