Íhuga að kæra Sogndal vegna Alexanders

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir

Grindvíkingar stóðu að því er virðist í vegi fyrir því að Alexander Magnússon færi á reynslu til Sogndal í Noregi eins og fram kom í fréttum í gærkvöldi. Jónas Þórhallsson formaður knattspyrnudeildar Grindavíkur segir í samtali við Víkurfréttir að lið Sogndal hefði brotið á Grindvíkingum og að það væri alkunna að norsk lið ættu í miklum fjárhagserfiðleikum. Grindvíkingar vilja því ekki senda einn af þeirra bestu leikmönnum á reynslu á þessum tímapunkti.

„Liðið sendir leikmanni sem er á samning hjá okkur farseðla í hendurnar eftir að við höfðum hafnað beiðni þeirra með formlegum hætti föstudaginn 6. jan s.l. um að fá leikmanninn á reynslu. Ég tel þá vera að brjóta á okkur og setja leikmann okkar í uppnám,” segir Jónas formaður Grindavíkur. Hann segist einnig alvarlega íhuga að kæra lið Sogndal sem hann telur hafa brotið á íslenskum knattspyrnulögum. „Liðið sendir honum farseðlana án þess að ræða við okkur eftir að við höfðum neitað og ég les svo um það í Mogganum að hann sé á leið þangað út. Þetta er bara niðurlægjandi fyrir okkur og þó svo að Norðmenn hafi náð ágætis árangri í knattspyrnu þá eiga þeir ekki að vera með einhvern hroka gagnvart okkur,” hafði Jónas á orði.

„Þeir biðja um leikmanninn og ég ráðfæri mig við þjálfarareymi mitt, sem ég tel vera eitt það besta á landinu. Fyrst var talað um að hann færi til æfinga, svo kemur í ljós að hann er að fara í hraðmót. Við erum með manninn í vinnu hjá okkur og erum að reyna að búa til lið sem stefnir á betri árangur en við höfum áður séð í Grindavík. Félagið hefur aldrei staðið í vegi fyrir einum einasta leikmanni en þarna er það mat þjálfarans og leikmanns sem þekkir vel til í Noregi að þetta væri best í stöðunni núna. Við útskýrðum þetta fyrir Alexander föstudaginn 6. jan og sögðum honum að hans tími myndi koma. Nú þarf bara að koma honum í leikform eins og öðrum mönnum. Hann er að leika á miðjunni fyrir okkur núna sem er ný staða fyrir hann. Það mun gera hann að fjölhæfari leikmanni og um leið betri söluvöru. Alex er topp drengur og mun fara alla leið og um leið uppfylla sína drauma, en það þarf þolinmæði til þess,” sagði Jónas og augljóst að leikmaðurinn er í miklum metum innan félagsins.

„Ég get sagt það að Alexander er mjög hátt skrifaður hjá Guðjóni sem telur hann hafa alla burði til þess að ná langt. Grindvíkingar væru þessa stundina í leit að leikmönnum til að styrkja leikmannahópinn fyrir komandi átök. „Guðjón hefur góð sambönd erlendis og við erum að horfa út fyrir landið þar sem fullt að góðum leikmönnum eru í boði. Það eru mikil vandræði í mörgum löndum í Evrópu og þá falla margir leikmenn af borðinu sem ættu að henta okkur vel. Andri Fannar Freysson frá Njarðvík hefur svo verið að æfa með okkur og það er ekkert launungamál að við erum í viðræðum við Njarðvíkinga varðandi hann,” sagði Jónas að lokum.

Frétt: Víkurfréttir.

Mynd: Frá lokahófi fótboltans í haust. Alexander fyrir miðju.