Hitað upp fyrir Dominos deildina, Jóhann Þór í viðtali við karfan.is

Ungmennafélag Grindavíkur Íþróttafréttir, Körfubolti

Karlalið Grindavík hefur leik í Dominos deildinni á útivelli þetta árið en fyrsti leikur tímabilsins verður á Selfossi gegn FSu núna á fimmtudaginn kl. 19:15. Grindvíkingar urðu fyrir töluverðri blóðtöku í vor en einn besti leikmaður Íslandsmótsins á síðasta tímabili, Ólafur Ólafsson, er farinn til Frakklands í atvinnumennsku. Karfan.is tók nýjan þjálfara liðsins, Jóhann Þór Ólafsson tali:

Það eru alltaf gerðar kröfur um árangur í Grindavík
– Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur

Komnir:
Páll Axel Vilbergsson, Skallagrímur
Jens V. Óskarsson, Keflavík
Hector Harold, USA (síðan greinin birtist hefur Hector verið sendur heim til sín en Eric Wise er eftirmaður hans)
Farnir:
Nökkvi Harðarson, KFÍ
Oddur Kristjánsson, ÍR
Ólafur Ólafsson, Frakkland
Björn Steinn Brynjólfsson, hættur
Rodney Alexander. 

Hvernig hefur undirbúningur liðsins gengið í sumar og upp á síðkastið?
Undibúningur hefur gengið vel. Sumarið einkenntist af stífum æfingum undir leiðsögn Helga Jónasar og fjáröflunum fyrir æfingarferð. Fórum svo í þessa æfingarferð til Spánar sem að var mjög góð í alla staði. Svo erum við á síðustu metrunum núna. Erum að reyna að finna kana í augnablikinu sem að truflar þetta aðeins en ekkert sem að ekki hefur gerst áður.

Komandi tímabil og væntingar þjálfara og liðsins til þess?
Tímabilið leggst nokkuð vel í okkur í Grindavík. Árið í fyrra var óneitanlega vonbrigði. Það einkenndist af meiðslum lykilmanna og bara almennt séð vonbrigðum á vonbrigði ofan. Í auknablikinu eru menn bara ferskir og þetta lítur þokkalega út. Við eigum samt nokkuð í land og stefnum á að bæta okkar leik jafnt og þétt. Það eru hinsvegar alltaf gerðar kröfur á árangur í Grindavík. Það er engin breyting á því í ár. Það er nokkuð ljóst að við höfum misst mikið í Ólafi sem að var okkar besti maður í fyrra. Að sama skapi verður Jón Axel með frá byrjun og ungir drengir ári eldri og vonandi klárir í átökin. En okkar væntingar eru að gera þó nokkuð betur en í fyrra og reyna að koma okkur aftur á stall þeirra bestu.

Hvaða lið telur þú sterkust í dag fyrir mót?
Svona í fljótu bragði verða þetta KR, Tindastóll, Haukar og Stjarnan. Svo er alltaf gerða kröfur í Reykjanesbæ. Eins og áður segir þá stefnum við á að blanda okkur í þessa baráttu. En ég held hinsvegar að þetta verði jafnt og skemmtilegt mót.